Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 14:52:48 (4997)

2000-03-07 14:52:48# 125. lþ. 73.4 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, DrH
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[14:52]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um starfsréttindi tannsmiða. Í dag er staðan þannig að tannsmiðir eru iðnaðarmenn og hljóta löggildingu gegnum iðnrn. Hluti af starfssviði tannsmiða er mótataka og mátun tanngóma og tannparta og skarast starfssvið þeirra þar við tannlækna, sem er heilbrigðisstétt og hlýtur löggildingu gegnum heilbrrn. Sérstök lög um tannsmiði eru ekki til þar sem kveðið er á um verksvið þeirra. Lög um tannlækningar, nr. 38/1985, segja til um verksvið tannlækna og skilgreinir 6. gr. laganna verksvið tannlækna. Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar frá 7. desember 1995 er tannsmiðum ekki heimilt að vinna á eigin ábyrgð við töku móta og mátun tanngóma og tannparta, þar sem 6. gr. laga um tannlækningar feli í sér einkarétt tannlækna á þessum verkum og lög ekki til um starfsréttindi tannsmiða sem skilgreina verksvið þeirra. 6. gr. laga um tannlækningar felur því í sér skýra takmörkun á atvinnufrelsi tannsmiða. Tannsmiðum er þannig ekki heimilt að vinna að mótun og mátun tanngóma og tannparta nema með tilvísun og ábyrgð tannlæknis.

Herra forseti. Til að tryggja atvinnufrelsi tannsmiða þarf að setja sérstök lög um starfsréttindi tannsmiða þar sem verksvið þeirra er skilgreint. Á Norðurlöndum starfa tannsmiðir á eigin ábyrgð við mótatöku og mátun tanngóma og tannparta. Samanburður á námi íslenskra tannsmiða og danskra tannsmiða leiðir í ljós að tannsmíðameistari hefur um 7.200 námstíma í faginu að baki, en danskur tannsmiður sem starfar sjálfstætt hefur 6.200 námstíma í faginu að baki. Helsti munur á námi íslenskra og danskra tannsmiða sem skiptir máli í þessu sambandi er að íslenskir tannsmiðir hafa færri tíma sem snúa að samskiptum við viðskiptavini, m.a. vinnu í munnholi og í bóklegum greinum í meinafræði munnhols.

Tannlæknafélag Íslands hefur lýst sig algjörlega mótfallið því að tannsmiðir fái að starfa á eigin ábyrgð við mótun og mátun tanngóma og tannparta. Helstu rök þeirra eru að tannsmiðir hafi ekki nægilega langt nám að baki til að vinna sjálfstætt við mótatöku og mátun tannparta og góma og þurfi að bæta við sig tveggja ára bóklegu námi og eins árs þjálfun til að svo geti orðið til viðbótar við það fimm ára nám sem þeir hafa nú, fjögur ár í námi, eitt ár hjá meistara og meistaraskóla. Að ekki gangi upp að tvær stéttir séu að vinna að sama verkinu, önnur iðnstétt, hin heilbrigðisstétt, og að á hverju ári greinist á bilinu 4--6 flöguþekjukrabbamein í munnholi einstaklinga.

Afleiðingar núverandi stöðu eru þær að atvinnufrelsi tannsmiða er verulega skert. Nokkrir tannsmiðir eru atvinnulausir þar sem hópar tannlækna hafa bundist samtökum um að sniðganga þá vegna baráttu þeirra fyrir sjálfstæðum rétti til að starfa við fag sitt. Dæmi eru um að tannsmiðir hafi þurft að flytjast af landi vegna þessarar stöðu.

Í frv. er lagt til að sett verði lög um starfsréttindi tannsmiða þar sem réttur þeirra til að starfa sjálfstætt við mótatöku og mátun tanngóma og tannparta er tryggður. Starfsréttindi miðist við meistararéttindi í tannsmíði. Ráðherra er skylt að kveða á um með hvaða skilyrðum tannsmiðir skuli taka þátt í námskeiði til að geta öðlast starfsréttindi. Samkvæmt ráðleggingum Árósaháskóla er áformað að setja á laggirnar 133 tíma námskeið fyrir tannsmiði þar sem sérstaklega er lögð áhersla á meinafræði tannhols sem tannsmiðir mundu sækja til að fá starfsréttindi samkvæmt lögunum. Líklega mundi nám tannsmiða breytast í samræmi við þessar kröfur.

Herra forseti. Tilgangur frv. er að tryggja rétt tannsmiða með meistararéttindi til að geta starfað sjálfstætt að grein sinni sem er löggilt iðngrein og þá geta þeir unnið sjálfstætt við mótatöku og mátun tanngóms og tannparta að fengnu viðbótarnámi sem lagt er til í greinargerðinni. Samsvörun er á starfssviði tannsmiða og starfssviði stoðtækjasmiða. Stoðtækjasmiður tekur mót og sér um mátun gervifótar en vísar til sérfræðings ef stúfurinn er ekki heilbrigður. Frv. mun mæta andstöðu Tannlæknafélagsins, enda er um fjárhagslega hagsmuni að ræða. En fjölmagir tannlæknar eru þeirrar skoðunar að veita tannsmiðum sjálfstæðan rétt til þessara starfa að undangengnu viðbótarnámi eins og lagt er til í grg. með frv.

Herra forseti. Ég tel eðlilegt að heilbr.- og trn. segi sitt álit á frv. og ég veit að frv. mun fá vandaða meðferð hjá hv. iðnn.