Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 15:15:05 (5002)

2000-03-07 15:15:05# 125. lþ. 73.4 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um starfsréttindi tannsmiða þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Tannsmiðir með meistararéttindi geta á eigin ábyrgð smíðað og gert við tanngóma og tannparta og þá m.a. unnið við töku móta og mátun, enda séu ekki sjúklegar breytingar eða meðfæddir gallar í munni eða kjálka viðskiptavinar.``

Það er við þessa 1. mgr. 1. gr. sem ég vil staldra og gera nokkrar athugasemdir því að það kemur ekki fram í þessu frv. enda á eftir að smíða frekari reglugerð með frv., hvernig tannsmiður með meistararéttindi geti metið hvenær ekki séu sjúklegar breytingar eða meðfæddir gallar í munni eða kjálka. Þá vil ég frekar undirstrika sjúklegar breytingar því meðfæddir gallar eru yfirleitt það augljósir að það þarf ekki einu sinni tannsmið til að þekkja þá. Margar sjúklegar breytingar eins og byrjunarstig munnholskrabbameins geta verið þannig að þær fari fram hjá tannlæknum, hvað þá tannsmiðum. Það þarf nokkra sérþekkingu til að greina forstigsbreytingar krabbameins í munni. Ég tel að það að gefa tannsmiðum með meistararéttindi fullt vald til þess að smíða góma á eigin ábyrgð án þess að vísa fyrst til tannlækna geti leitt til þess að sjúkdómar, duldir eða illgreinanlegir í byrjun, geti náð sér á strik og orðið erfitt að eiga við undir þeim tanngómum sem smíðaðir eru, þetta gæti orðið til þess að síðar en ella væri gripið inn í t.d. krabbameinsbreytingar í munni. Mikilvægt er að læknar skoði góma sjúklinganna áður en upp í þá er smíðað.

Ég skil vel að tannsmiðir með meistararéttindi vilji fá að starfa sjálfstæðar en er í dag en mér finnst þetta vera svo mikið öryggismál varðandi heilsu fólks að tilvísun frá lækni til tannsmiðanna þurfi. Það þyrfti ekki nema eina skoðun til að tannsmiðurinn hafi síðan fullan rétt til að smíða áfram. Þetta er iðngrein og það er hægt að finna sambærilegar iðngreinar sem snúa að mannslíkamanum eins og stoðtækjasmíði og sama gildir um gleraugnasmíði. Áður en stoðtæki eru smíðuð koma auðvitað læknar að og sérstaklega þegar fyrstu eintökin eru smíðuð. Þá eru læknar með í ráðum og gleraugnasmiðir fá tilvísun frá augnlækni til þess að fullvinna gleraugu. Þeir hafa ekki leyfi til þess að meta sjón og vinna gleraugu án tilvísunar frá lækni. Í mínum huga er þetta samsvarandi réttindum starfsstétta eins og stoðtækjasmiða og gleraugnasmiða þar sem samvinnu þarf milli heilbrigðisstarfsmanna, þ.e. lækna og þessara iðnlærðu manna, við smíði stoðtækjanna. Það er alveg sama hvort það eru gervitennur, gervilimir eða gleraugu. Það þarf að gæta þessa öryggis og meta hvort einhverjir undirliggjandi sjúkdómar eru til staðar sem þarf að meðhöndla, ekki eingöngu eins og skert sjón.

Ég vil fyrst og fremst horfa til öryggis einstaklinganna en ekki skerts starfssviðs tannlækna. Mér finnst það algerlega aukaatriði í þessu máli. Ég tel þurfa tilvísun tannlæknis til tannsmiðs þó svo tannsmiðir hafi full réttindi til að smíða gervitennurnar. Ég vil að sérstaklega verði tekið tillit til þessa þegar málið fer til meðferðar bæði í iðnn. og heilbrn.