Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 15:28:40 (5005)

2000-03-07 15:28:40# 125. lþ. 73.4 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[15:28]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að rétt sé að ég biðjist afsökunar á óvönduðu orðbragði úr ræðustól en bendi um leið á að tannsmiðir búa að fjögurra ára námi og frv. gerir ráð fyrir því að ráðherra geti sett í reglugerð ákvæði þess efnis að krefjast frekari menntunar eða náms, þ.e. að þeir fari á námskeið áður en þeir öðlist þessi réttindi. Mér finnst því að þarna séu í raun gerðar ítarlegri kröfur en á mörgum öðrum sviðum sem snerta heilbrigði okkar eins og áður hefur verið nefnt t.d. hvað varðar matvælaiðnaðinn. Við erum á hverjum einasta degi að innbyrða matvæli sem unnin hafa verið í matvælaiðnaði, ýmist hér eða erlendis. Tannsmiðir eða tannlæknar koma kannski ekki eins oft við sögu í lífi okkar og það fólk sem vinnur í matvælaiðnaði.

Það er sjálfsagt að gera strangar kröfur. En það er jafnsjálfsagt að virða það nám og þá kunnáttu sem til staðar er hjá hverri stétt, gera til hennar kröfur, hafa með henni strangt eftirlit en veita henni heimild til þess að vinna í samræmi við þekkingu sína. Ég tel að flestir tannsmiðir hér á landi búi yfir mjög góðri þekkingu á sínu sviði.