Vörumerki

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 15:42:03 (5013)

2000-03-07 15:42:03# 125. lþ. 73.5 fundur 370. mál: #A vörumerki# (málarekstur o.fl.) frv. 13/2000, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli sem iðnrh. fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 45/1997, um vörumerki, með síðari breytingum, sem er að finna á þskj. 626.

Með frv. þessu er ætlunin að bæta úr réttarástandi sem skapaðist vegna úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 1999, um túlkun á ákvæði laga um vörumerki. Af niðurstöðunni leiddi að ekki er unnt að ógilda skráningu erlends vörumerkis hér á landi vegna skorts á varnarþingsákvæði. Er því lagt til að bætt verði við 35. gr. laganna nýrri málsgrein þar sem kveðið er á um að umsækjendur og eigendur skráningar á vörumerkjum, sem hafa ekki lögheimili hér á landi, teljist hafa varnarþing í Reykjavík í málum sem rekin eru samkvæmt lögunum. Jafnframt er tækifærið notað til að gera breytingar á tveimur ákvæðum laganna. Annars vegar er um að ræða breytingu á 4. mgr. 42. gr. laganna og geymir hún einnig réttarfarsákvæði. Hins vegar þykir rétt, með breytingu á 65. gr. laganna, að gera ótvíræðari en nú er gjaldtökuheimild vegna áfrýjunar til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Ekki er talið að frv. hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. iðnn.