Álbræðsla á Grundartanga

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 15:47:17 (5015)

2000-03-07 15:47:17# 125. lþ. 73.6 fundur 371. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (fasteignaskattur) frv. 12/2000, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[15:47]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þetta frv. um breytingu á lögum um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga felur í sér að verið er að ráðstafa sköttum af þessari verksmiðju vegna stækkunar verksmiðjunnar. Mér skilst að allur undirbúningur að þessari stækkun liggi fyrir og út af fyrir sig ætla ég ekki að gera stækkunina að umræðuefni. Hins vegar tel ég fulla ástæðu til þess að gera að umræðuefni hvernig þessum sköttum er skipað. Það vill svo til að á atvinnusvæði þeirra verksmiðja sem þarna eru getum við sagt að séu fjögur sveitarfélög og fimm ef við teljum Akranes með. Venjulega eru fjórir hreppar skilgreindir sem hrepparnir sunnan Skarðsheiðar og eru þeir samtals með um 500 íbúa. Þessum fjórum hreppum er afskaplega mikið mismunað hvað tekjur varðar og ég hef satt að segja aldrei skilið hvers vegna menn tóku ekki á þessu máli í upphafi þegar járnblendiverksmiðjan var byggð og síðan í viðbót þegar álbræðslan var sett þarna niður líka. Einungis tveir af þessum fjórum hreppum fá tekjur af þessum stóru fyrirtækjum og reyndar fær einn hreppurinn langstærsta hlutann af öllum tekjunum. Þannig var komið að sá hreppur hafði einungis 3% útsvar á þá sem bjuggu í honum og gat samt lagt malbik nánast heim á hvern bæ og lýst allar heimreiðar í sveitinni en aðrir hreppar þarna í kring lepja dauðann úr skel og hafa varla efni á því að keyra krakkana í skólann því allar tekjurnar fara í það. Ég er satt að segja að halda þessa tölu til að hvetja nefndarmenn, sem um þetta mál eiga að fjalla, til að skoða hvort engar leiðir séu til að sjá til þess að þeir fjármunir sem koma inn vegna tekna af þessum atvinnurekstri geti runnið til íbúanna sem eru þó sannarlega á þessu atvinnusvæði og það er ekki stórt. Það tekur ekki meira en 15--20 mínútur að keyra milli enda á þessum fjórum byggðarlögum þannig að ekki þarf að deila um að þarna er um að ræða eitt atvinnusvæði og einungis um 500 manns sem búa á öllu svæðinu. Svona er gæðunum misskipt. Ég tel að það ætti að vera á færi hins opinbera að sjá til þess að þarna væri betur að málum staðið. Ég ætla ekki að spá neinu um niðurstöðuna en ég er einungis að koma því á framfæri til hv. nefndarmanna að þeir skoði hvort ekki sé mögulegt að koma á dálítið meira réttlæti í sveitunum sunnan Skarðsheiðar.