Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 15:51:55 (5016)

2000-03-07 15:51:55# 125. lþ. 73.7 fundur 359. mál: #A almenn hegningarlög# (vitnavernd, barnaklám o.fl.) frv. 39/2000, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[15:51]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Í frv. eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum laganna en þessar tillögur eru af ýmsu tagi og tilefni þeirra mismunandi eins og ég mun rekja nánar.

Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. almennra hegningarlaga hafa eiginmaður eða eiginkona látins manns, foreldrar, börn, kjörbörn og systkin hans rétt til að höfða mál eða bera fram kröfu um opinbera málshöfðun ef misgert var við þann látna eða ef verknaður, sem beinist að dánum manni, er refsiverður. Þetta ákvæði hefur staðið óbreytt í hegningarlögum frá árinu 1940. Rétt þykir að auka þessa vernd og er lagt til í 1. gr. frv. að barnabörnum hins látna verði einnig heimilt að höfða mál ef misgert var við þann látna eða ef refsiverður verknaður beinist að dánum manni. Hér eru hafðar í huga þær miklu þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa frá því lögin voru sett og lúta m.a. að aukinni fjölmiðlun og flæði upplýsinga.

Í 2. gr. frv. er lagt til að almennt sektarhámark í 50. gr. hegningarlaga verði afnumið en þetta hámark hefur verið 4 millj. kr. frá árinu 1985. Hámark þetta er með öllu ófullnægjandi, einkum þegar um er að ræða umfangsmikil efnahagsbrot eða þegar lögaðilar sæta refsiábyrgð. Ekki þykja sérstök rök mæla með því að viðhalda almennu sektarhámarki og má ætla að varnaðaráhrif refsinga verði meiri í alvarlegustu málum ef dómstólar geta ákvarðað sektir óbundnar af fyrir fram gefnu sektarhámarki. Þess má geta að í Danmörku var sektarhámark afnumið árið 1930 og í Noregi árið 1946.

Í 3. og 5. gr. frv. er að finna tillögur sem reistar eru á skýrslu nefndar sem dómsmrh. skipaði til að fjalla um sérstakar rannsóknaraðgerðir lögreglu.

Í 3. gr. er lagt til að nýjum tölulið verði bætt við 70. gr. hegningarlaga um að heimilt verði við ákvörðun refsingar að taka tillit til þess hvort sakborningur hefur upplýst um aðild annarra að broti. Að gildandi lögum verður virt til málsbóta eða refsilækkunar ef gerandi hefur veitt upplýsingar um aðild annarra að broti. Þó þykir rétt að hnykkja sérstaklega á þessu atriði og tilgreina það beinlínis í lögunum sem refsiákvörðunarástæðu til að hvetja menn til að upplýsa brot. Það skal áréttað sérstaklega að fyrir fram verður ekki samið um refsi\-ívilnun og dómstólar eiga mat um hvaða áhrif upplýsingar um aðild annarra að broti hafi á ákvörðun refsingar.

Í 5. gr. frv. er síðan lagt til, á grundvelli skýrslu umræddrar nefndar sem fjallar um sérstakar rannsóknaraðgerðir lögreglu, að lögfest verði í 108. almennra hegningarlaga sérstakt ákvæði um vitnavernd. Sú tillaga tekur m.a. mið af tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 10. september 1997, um ógnanir gegn vitnum.

Þær tvær tillögur sem ég hef rakið hér og er að finna í 3. og 5. gr. frv. miða sérstaklega að því að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Með þessum tillögum er reynt að rjúfa þann þagnarmúr sem ríkir oft um brotastarfsemi og hvað það varðar eru sérstaklega höfð í huga misferli með eiturlyf. Þegar slík afbrot eru framin er leyndin mikilvæg til að brotastarfsemin geti þrifist, þekkist jafnvel að gripið sé til ógnana eða ofbeldis gegn vitnum til að fyrirbyggja að upplýsingar berist lögreglu og dómstólum og því er mikilvægt að treysta sérstaklega stöðu vitna. Þó skipulögð glæpastarfsemi valdi tæplega sama vanda hér á landi og víða annars staðar, er mikilvægt að vera á varðbergi í þessum efnum.

Í 4. gr. frv. er lagt til að fyrningartími sakar verði fjögur ár þegar lögaðilum verði gert að sæta refsiábyrgð og að ákvæði þess efnis komi í 81. gr. laganna. Þessi fyrningarfestur er að gildandi lögum tvö ár. Rétt þykir að lengja þennan frest með hliðsjón af því að sakamál þar sem lögaðilum verður gert að sæta refsiábyrgð eru gjarnan flókin og hætt er við að reynt sé að dylja slíka brotastarfsemi.

Herra forseti. Þá er í 6. gr. frv. lagðar til breytingar á reglum um barnaklám í 210. gr. hegningarlaga. Þessi tillaga frv. er tvíþætt.

Í fyrsta lagi er lagt til að viðurlög við því að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni eða að miðla barnaklámi, verði þyngd verulega. Samkvæmt gildandi lögum getur brot af þessu tagi varðað sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum og er í hegningarlögum ekki gerður greinarmunur á því hvort klámefni sýnir börn eða fullorðna. Af augljósum ástæðum þykir rétt að leggja þyngri refsingar við brotun þegar klámefni beinist að börnum. Með því er leitast við að veita börnum frekari vernd gegn þeirri misnotkun sem felst í framleiðslu og dreifingu barnakláms auk þess sem lögð er sérstök áhersla á alvarleika þessara brota.

Í öðru lagi er lögð til breyting á 4. mgr. 210. gr. hegningarlaga, en það ákvæði leggur refsingu við því að hafa barnaklám í vörslum sínum. Þetta ákvæði er bundið við vörslur barnakláms en rétt þykir að innflutningur barnakláms verði einnig refsiverður án þess að sá sem þess aflar hafi fengið klámefnið í sínar vörslur. Í framkvæmd þekkjast þess dæmi að barnaklám hafi fundist í flutningi áður en það er afhent viðtakanda og hefur ekki verið talið unnt að sækja menn til sakar í slíkum tilvikum.

Hvað varðar barnaklám vil ég sérstaklega vekja athygli á því að mikilvægt er að fylgjast með þróun erlendrar löggjafar á þessu sviði. Einnig er samvinna við erlend lögregluyfirvöld mikilvæg og það á einkum við þegar barnaklámi er miðlað landa á milli með internetinu.

Nýlega átti fulltrúi minn fund með starfsmönnum bandaríska dómsmálaráðuneytisins og kynnti sér m.a. rannsókn þessara mála. Var sá fundur haldinn í tilefni af heimsókn minni til dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Janet Reno, sl. haust. Á þessum fundi kom fram að undir dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna er starfrækt sérstök skrifstofa sem hefur með höndum skipulagningu á þjálfun starfsmanna ákæruvalds og lögreglu sem annast rannsóknir tölvubrota. Af hálfu bandarískra stjórnvalda kom einnig fram mikill áhugi á því að bjóða erlendum lögreglumönnum þjálfun og fræðslu á þessu sviði.

Á fundinum var þeirri málaleitun vel tekið að íslensk stjórnvöld gætu sent lögreglumenn til þjálfunar í rannsókn þessara mála. Í þeim efnum var m.a. rætt um að íslenskir lögreglumenn fengju þjálfun í rannsóknum á dreifingu ólöglegs efnis eins og barnakláms á internetinu. Ég vil leggja ríka áherslu á að kappkostað verði að vanda rannsókn þessara mála og með öllum tiltækum ráðum verði þessi brotastarfsemi upprætt. Hvað það varðar skiptir þjálfun lögreglumanna og samstarf við erlend lögregluyfirvöld miklu.

Að lokum vil ég geta þess að lagt er til í 7. gr. frv. að numin verði úr gildi 2. mgr. 256. gr. hegningarlaga en þar segir að ekki skuli höfða opinbert mál ef tjón af auðgunarbroti nemur ekki hærri fjárhæð en 7 þús. kr. og engin sérstök atvik auka saknæmi brots og sökunautur hefur ekki áður reynst sekur um slík brot. Ekki þykir rétt að sérstök málshöfðunarskilyrði gildi um þessi brot frekar en önnur brot sem talin verða minni háttar. Þess í stað er eðlilegt að slíkum brotum verði lokið eftir almennum reglum og hvað það varðar kemur til álita að ljúka máli með lögreglustjórasátt, ákærufrestun eða niðurfellingu saksóknar.

Herra forseti. Ég hef rakið efnisatriði frv. í aðalatriðum og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.