Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 16:02:06 (5017)

2000-03-07 16:02:06# 125. lþ. 73.7 fundur 359. mál: #A almenn hegningarlög# (vitnavernd, barnaklám o.fl.) frv. 39/2000, BH
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[16:02]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Mér sýnist að í þessu frv. séu faldar réttarbætur. Frv. felur í sér breytingar á nokkrum ákvæðum almennra hegningarlaga. Ég sé ekki betur en þær séu allar til bóta frá því sem nú er.

Ég ætla einungis að gera hér að umtalsefni tvær greinar frv. Í fyrsta lagi 2. gr. en þar er almennt sektarhámark í 50. gr. almennra hegningarlaga afnumið. Ég held að það sé orðið tímabært að treysta dómstólum fyrir því að ákveða þetta sektarhámark. Hæstv. dómsmrh. færði góð rök fyrir því í framsögu sinni.

Ég vil til viðbótar því sem hæstv. dómsmrh. sagði áðan draga enn betur fram fáránleika þess að hafa sektarlágmark eða sektarhámark í lögum. Ég vísa til greinargerðarinnar eða athugasemda með lagafrv. en þar segir til rökstuðnings því að afnema sektarhámarkið, með leyfi forseta:

,,Í 50. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sagði upphaflega að ekki mætti gera manni á hendur lægri sekt en 4 krónur og eigi hærri en 30.000 krónur, nema sérstök lagaheimild væri fyrir því að ákveða sekt hærri eða lægri. Þetta ákvæði fól í sér almennt sektarlágmark og sektarhámark og átti ekki aðeins við um brot gegn almennum hegningarlögum heldur einnig brot gegn öðrum lögum sem ekki höfðu að geyma sérstök ákvæði um lágmark eða hámark sektar. Með 5. gr. laga nr. 101/1976 var almennt sektarlágmark afnumið en sektarhámark hækkað í 5 milljónir króna nema heimild væri í lögum til að beita hærri sektum. Sektarhámark laganna var aftur hækkað með 1. gr. laga nr. 34/1980 í 30 milljónir króna. Næst var sektarhámarki laganna breytt í eina milljón króna með 1. gr. laga nr. 75/1982, en þá hafði verðgildi krónunnar hundraðfaldast í upphafi árs 1981. Loks var sektarhámarkið hækkað með 7. gr. laga nr. 42/1985 í 4 milljónir króna og hefur verið óbreytt síðan. Þær breytingar á sektarhámarki laganna, sem hér hafa verið raktar, hafa allar miðað að því að hækka fjárhæðina með hliðsjón af þróun verðlags á hverjum tíma.``

Mér finnst það gefa augaleið þegar þetta er lesið til viðbótar þeim rökum sem hæstv. dómsmrh. velti upp áðan að almenn hegningarlög ættu ekki að þurfa að hafa innan borðs ákvæði sem bjóða upp að þeim þurfi að breyta mjög ört með tilliti til þróunar verðlags og gengis krónunnar á hverjum tíma. Það gefur í sjálfu sér augaleið. Almenn hegningarlög eiga að vera rammi og síðan eiga dómstólar að sjálfsögðu að túlka þau hverju sinni. Ég fagna því þessari breytingu.

Ég vildi líka gera 6. gr. frv. að umtalsefni en þar er gerð breyting á 210. gr. almennra hegningarlaga. Lagt er til að aukin refsing verði við því að flytja inn eða dreifa barnaklámi. Það er í raun lögð til sérstök refsing við því þegar um barnaklám er að ræða. Síðan er líka breytt 4. mgr. laga nr. 126/196, um vörslu, og gert sérstaklega refsivert að flytja inn barnaklám þó það sé ekki komið í vörslu viðkomandi.

Ég fagna þessari breytingu og mun á eftir mæla fyrir frv. sem ég er fyrsti flutningsmaður að og allur þingflokkur Samfylkingarinnar stendur að, sem er efnislega samhljóða þeim breytingum sem lagðar eru til í þessu frv. Ég fagna því að hæstv. dómsmrh. skuli taka á þessu máli. Það er orðið tímabært að gera það og beina sjónum okkar sérstaklega að barnaklámi út frá sjónarmiði refsiréttarins. Þess vegna fagna ég þessari breytingu og vonast til þess að frv. sem ég mun mæla fyrir á eftir fái umræðu samhliða þessu frv. hæstv. dómsmrh. í hv. allshn.

Mestu máli skiptir að hér er á ferðinni mikil réttarbót og spor til framfara í tengslum við meðferð þeirra viðkvæmu mála sem barnaklámsmál eru. Það er orðið tímabært að taka á þeim af meiri festu en verið hefur. Þessi breyting felur í sér ákveðna breytingu í afstöðu til barnakláms og meðferðar á því. Hún er tímabær og ég fagna henni.