Meðferð einkamála

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 16:40:01 (5022)

2000-03-07 16:40:01# 125. lþ. 73.10 fundur 403. mál: #A meðferð einkamála# (málskostnaður) frv., Flm. GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[16:40]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Það frv. sem ég flyt hér á það sammerkt með málinu sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson mælti fyrir áðan að það er mikið og alvarlegt réttlætismál. Í málinu sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson mælti fyrir er um gífurlega hagsmuni að ræða. Þar er um að ræða mál sem kosta mun töluvert mikil átök. Málið sem ég aftur á móti er að flytja er réttlætismál sem ekki hefur í för með sér miklar deilur um hagsmuni. Þó er mikilvægt fyrir einstaklinginn sem í hlut á að hann nái rétti sínum þegar þannig horfir.

Herra forseti. Þetta mál snýst um það þegar einstaklingur sem sótt hefur mál á hendur öðrum, t.d. vegna launakrafna, hefur unnið það fyrir rétti og sá sem tapaði málinu er dæmdur til að greiða allan kostnað; falli sá frá sem greiða átti málskostnaðinn og standi dánarbú viðkomandi eftir án fjármuna þá fellur kostnaðurinn á þann sem unnið hafði málið. Það er mjög merkilegt. Í 130. gr. laga um meðferð einkamála stendur í 1. mgr.:

,,Sá sem tapar máli í öllu verulegu skal að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað.`` Þannig er í því tiltekna máli sem ég var að vísa til en hins vegar er ekki gert ráð fyrir því sem ég nefndi hér að gæti gerst. Þess vegna legg ég fram þetta frv., 403. mál. Með mér eru hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og Guðrún Ögmundsdóttir sem flutningsmenn. 1. gr. frv. orðast svo:

,,Við 130. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:

Látist maður sem dæmdur hefur verið til greiðslu málskostnaðar eða hafi hann verið úrskurðaður gjaldþrota eftir að dómur gengur í máli hans og eignir dánar- eða þrotabúsins duga ekki til greiðslu málskostnaðar skal málskostnaður eða það sem eftir stendur af honum greiðast úr ríkissjóði.``

Hér getur vart getur verið um mikla fjármuni að ræða. Þó er það hugsanlegt en ég á ekki von á því. Þess vegna er í frv. vísað sérstaklega til breytingar á lögum um meðferð einkamála.

2. gr. frv. hljóðar þannig: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Í greinargerð segir:

,,Eitt af grundvallaratriðum íslenskrar stjórnskipunar er að einstaklingar og lögaðilar geta leitað réttar síns með því að bera álitaefni undir dómstóla og fá niðurstöður. Eitt af því sem kemur í veg fyrir að einstaklingar leiti réttar síns er sú staðreynd að jafnvel þótt dómur falli viðkomandi í hag getur hann þurft að greiða málskostnað.``

Þetta er einmitt, herra forseti, það sem ég var að lýsa í máli mínu. Jafnvel þótt dómurinn falli viðkomandi í hag getur hann þurft að greiða málskostnað vegna þess að sá sem er sóttur er lýsir sig gjaldþrota áður en til greiðslu málskostnaðar kemur. Því fellur það á þann sem sækir rétt sinn að greiða kostnaðinn.

,,Flutningsmenn telja nauðsynlegt að koma í veg fyrir að þessi staðreynd hindri fólk í að leita réttar síns og því er þetta frv. lagt fram. Samfélagið á að sjá til þess að óprúttnir aðilar geti ekki komist hjá því að standa skil á því sem þeim ber með því að lýsa sig gjaldþrota. Ríkissjóður verður að bera ábyrgð á slíkum mönnum. Því er lagt til að ríkissjóður ábyrgist greiðslur í tilvikum sem þessum og að sama regla eigi við þegar sá sem sóttur er fellur frá, og eignir dánarbús hans duga ekki til greiðslu málskostnaðar.``

Herra forseti. Í þessum orðum liggja rökin á bak við þetta réttlætismál sem allir sem ég hef borið það undir eru sammála um að sé nauðsynlegt að fella inn í 130. gr. laga um meðferð einkamála. Menn hafa ekki gætt að því þegar þau lög voru sett að upp gætu komið tilvik eins og þau sem ég var hér að vísa til. Það vill svo til að ég veit um fleiri en eitt og fleiri en tvö slík tilvik. Það er virkilega ástæða til að laga þetta. Hér er fyrst og fremst um réttlætismál að ræða en ekki mikla hagsmuni. Þess vegna vonast ég eftir því að hv. allshn., sem fær málið til umfjöllunar, taki það fyrir, skoði og lagi að lögunum eins og hér er gert ráð fyrir. Vera kann nauðsynlegt að breyta þessu frv. á einhvern hátt en þeir gera þá tillögu um það, hv. þm. í allshn. Þetta þarf að afgreiða hið snarasta því að ég trúi ekki því að lítið mál sem þó er mikið réttlætismál þurfi mjög langa umfjöllun. Það er tiltölulega einfalt í framsetningu.

Herra forseti. Um leið og ég lýk máli mínu mælist ég til að málið fari til umfjöllunar í hv. allshn.

[16:45]