Samræmd slysaskráning

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 13:47:36 (5028)

2000-03-08 13:47:36# 125. lþ. 75.3 fundur 333. mál: #A samræmd slysaskráning# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[13:47]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa ágætu fyrirspurn, tel að skráning slysa sé í sjálfu sé mjög góð og það að setja hana í einn miðlægan gagnagrunn.

Ég velti því samt fyrir mér og langar að heyra það frá hæstv. heilbrrh. hvort samstaða sé um það meðal lækna að skrá slík slys í einn miðlægan gagnagrunn. Kemur ekki upp sú staða að menn telji að skýrslur sem þar eiga að vera megi ekki nota? Við getum alveg séð fyrir okkur að því miður lenda sömu mennirnir oft í því að slasast vítt og breitt um landið. Þessu er öllu safnað saman á einn stað og auðvelt að telja. Vafalítið væri hægt að gera það tortryggilegt eins og svo margt annað.

Ég velti því fyrir mér hvort ráðherrann sé ekki búinn að fylla upp í öll möguleg göt á löggjöf eins og þessari þannig að við lendum ekki í sömu vandræðunum og með Íslenska erfðagreiningu.