Aðbúnaður þroskaheftra á Landspítala

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 13:52:36 (5031)

2000-03-08 13:52:36# 125. lþ. 75.4 fundur 362. mál: #A aðbúnaður þroskaheftra á Landspítala# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. á þskj. 617, það er 362. mál.

Á endurhæfingar- og hæfingardeild Landspítala, háskólasjúkrahúss --- eins og það heitir nú --- búa enn tugir þroskaheftra einstaklinga sem áður dvöldust á Kópavogshæli. Árið 1992 samþykkti Alþingi að leggja niður Kópavogshælið enda óeðlilegt að hátæknisjúkrahús reki félagsþjónustu fyrir fatlaða. Í lok síðasta árs, í lok ársins 1999, bjuggu enn um 70 þessara einstaklinga á ríkisspítölum. Sjálfsagt má segja að einhverjir þeirra flokkist sem sjúklingar og eigi því heima á sjúkrahúsi, en meginþorrinn ekki. Aðbúnaður margra þeirra er fyrir neðan allar hellur, t.d. þeirra 19 eða 20 sem búa í fjórum gömlum niðurníddum starfsmannaíbúðum sem á engan hátt eru við hæfi fatlaðra.

Nú hafa ráðherrar Framsfl. verið yfir þessum málaflokki í hálfan áratug og ekki hefur ræst úr hjá þessu fólki þó því hafi ítrekað verið lofað. Ég minni á spurningu til Framsfl. árið 1995 fyrir kosningar þar sem spurt er um málefni þeirra einstaklinga sem dvelja á endurhæfingardeildinni í Kópvogi eða Kópavogshæli. Því var svarað í tímariti Þroskahjálpar:

,,Þetta er mál sem stjórnvöld verða skilyrðislaust að leysa. Fatlaðir eiga ekki undir engum kringumstæðum að líða fyrir það sem þriðji aðili í deilu stofnana og ráðuneyta.`` Þetta var 1995. Og enn eru þessir einstaklingar á Landspítalanum.

Ég minni einnig á orð hæstv. heilbrrh. í útvarpsþættinum Þjóðarsálinni fyrir ári. Þar vísaði hún til áætlunar félmrh. um hvernig þessum flutningi yrði lokið. Það var fyrir um það bil ári síðan, í febrúar í fyrra, sem hæstv. heilbrrh. viðhafði þau orð.

Aðbúnaður þessa fatlaða fólks í starfsmannablokkinni er ömurlegur. Þetta er gamalt niðurnítt húsnæði sem lítið hefur verið haldið við. Jarðhæðin er rétt fokheld með opnum klóökum. Baðherbergi eru upprunaleg, veggir gegnsósa af raka og illa lyktandi og svona gæti ég áfram talið upp. Aðstaða þessa fólks stenst ekki nokkrar kröfur um lífsgæði og alls ekki lögin um málefni fatlaðra. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,1. Hvenær er fyrirhugað að ráða bót á aðbúnaði þeirra þroskaheftu einstaklinga á endurhæfingar- og hæfingardeild Landspítala sem áður dvöldust á Kópavogshæli?

2. Er ekki tímabært að mati ráðherra að þetta fólk fái þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðra?``