Aðbúnaður þroskaheftra á Landspítala

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 13:55:49 (5032)

2000-03-08 13:55:49# 125. lþ. 75.4 fundur 362. mál: #A aðbúnaður þroskaheftra á Landspítala# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[13:55]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Síðan lög um málefni fatlaðra voru samþykkt á Alþingi hafa 42 einstaklingar flust frá Kópavogshæli á sambýli. En það er rétt að 35 einstaklingar bíða eftir að komast á sambýli. 25 einstaklingar verða áfram skjólstæðingar heilbrigðisþjónustunnar. Á meðan heilbrigðisþjónustan sér um þessa einstaklinga munum við gera eins vel við þá og mögulegt er. Það er verið að vinna að því að þessir 35 einstaklingar fari á sambýli.

Á þessu ári og því næsta verða opnuð 13 ný sambýli hér á þessu svæði og það léttir auðvitað mjög á og hv. þm. veit að fyrir það hefur verið mikil þörf. En 13 ný sambýli er nokkuð stór biti og breytir mjög miklu. Því er við að bæta að forstjóri Ríkisspítalanna er einmitt að vinna að þessum málum um þessar mundir. Ég á von á tillögum frá honum innan tíðar. Mjög svipuð fyrirspurn liggur fyrir félmrh. þannig að ég tel að þetta sé nægilegt í bili.