Aðbúnaður þroskaheftra á Landspítala

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 13:57:16 (5033)

2000-03-08 13:57:16# 125. lþ. 75.4 fundur 362. mál: #A aðbúnaður þroskaheftra á Landspítala# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þessi umræða um Kópavogshælið og framtíð þeirra sem þar hafa dvalist og nú á endurhæfingar- og hæfingardeild Landspítalans er ekki ný af nálinni. Á sínum tíma var öll áhersla lögð á að menn gæfu sér eitt til tvö ár til þess að ganga frá málefnu þeirra fötluðu einstaklinga sem þar dvöldu.

Nú dvelur enn þá töluverður hópur í endurhæfingar- og hæfingardeild Landspítalans og fellur ekki undir lög um málefni fatlaðra þó þeir ættu kannski fremur heima þar. Spurning mín til hæstv. ráðherra er fyrst og fremst þessi: Um leið og sjúkrahúsin eru efld með því að sameina þau og breyta þeim þannig að þau standist allar kröfur hátæknisjúkrahúsa, finnst henni þá ekki eðlilegt að endanlega sé tryggð framtíð þeirra sjúklinga sem þarna dvelja? Það vantar tímasetningar í þeim efnum, þ.e. hvenær þeir flytjast yfir á sambýli eða aðrar þær stofnanir sem við eiga í hverju tilviki.