Aðbúnaður þroskaheftra á Landspítala

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 13:58:26 (5034)

2000-03-08 13:58:26# 125. lþ. 75.4 fundur 362. mál: #A aðbúnaður þroskaheftra á Landspítala# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[13:58]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég fagna því að unnið sé að því að þessir einstaklingar fái þjónustu við hæfi og samkvæmt lögum. En því miður hefur slíku oft verið lofað eins og ég vitnaði til í máli mínu. Ég verð bara, herra forseti, að treysta því að þarna verði bráðar úrbætur gerðar. Það er ekki forsvaranlegt að bjóða fólki upp á aðstæðurnar í starfsmannaíbúðunum við Kópavogshælið. Þær eru fyrir neðan allar hellur.

Ég treysti því að hæstv. heilbrrh. og hæstv. félmrh. taki nú höndum saman og drífi í þessu. Ég heyrði ekki í máli hæstv. ráðherra hvenær hún hyggst vera búinn að flytja þessa einstaklinga úr þessu húsnæði og í viðunandi aðstöðu svo aðbúnaður þeirra verði í samræmi við lögin um málefni fatlaðra hvað varðar þjónustu við þessa einstaklinga.

Ég fagna því að verið er að vinna í málunum. En það þarf að gera meira en tala um hlutina. Framkvæmda er þörf. Vissulega tekur þetta tíma. Ég hef fullan skilning á því og menn hafa í áföngum verið að flytja fólk af Kópaovgshæli í viðunandi sambýli. En þarna er allt of stór hópur sem jafnvel alla sína ævi hefur búið við frekar auman aðbúnað og úr því þarf að bæta sem fyrst.