Meðferðarheimili að Gunnarsholti

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 14:01:37 (5036)

2000-03-08 14:01:37# 125. lþ. 75.5 fundur 384. mál: #A meðferðarheimili að Gunnarsholti# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[14:01]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Nýverið kom upp umræða sem við þekkjum vel frá síðustu tíu árum eða svo, þ.e. hvort reka eigi eða að loka vistheimilinu að Gunnarsholti í Rangárvallasýslu þar sem dveljast yfir 20 sjúklingar. Heimilið hefur verið rekið af Ríkisspítölunum og undir yfirumsjón geðsviðsins. Það er illþolanlegt bæði fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk að búa við það öryggisleysi hvað varðar framtíðina að þessi umræða skuli koma upp aftur og aftur. Gunnarsholt hefur haft mjög takmarkaðar fjárveitingar úr að spila, reynst ódýrt í rekstri þar sem kostnaður á hvert rúm er aðeins rúmar 6 þús. kr. á dag en það tekur auðvitað mið af því að framlögin hafa verið af skornum skammti til þessa reksturs.

Við sameiningu stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík og aukna áherslu á hátækni er ákveðin hætta á því að menn hugsi sér enn frekari samdrátt á öðrum sviðum og þá fyrst og fremst í rekstri eins og þeim sem er í Gunnarsholti. Þar eru sjúklingar sem þarfnast ekki hátæknimeðferðar heldur fyrst og fremst umönnunar og endurhæfingar, að læra að takast á við lífið. Þörfin fyrir stofnun eins og Gunnarsholt verður alltaf til staðar. Vistheimilið er staðsett þannig að það býður upp á mikla möguleika hvað varðar vinnu og alla endurhæfingu. Ég tel að miklir möguleikar séu í því að byggja jafnframt upp frekari starfsemi tengda því sem nú er, t.d. heildstæða endurhæfingarmeðferð fyrir unga fíkniefnaneytendur og fjölskyldur þeirra. En til þess að svo megi verða þarf að auka sjálfstæði þessarar stofnunar og það má og gera í samstarfi við heilbrigðisþjónustuna á svæðinu, í samstarfi við barnaverndaryfirvöld, skóla, bæði grunnskóla og framhaldsskóla. En staðreyndin er sú að þess eru dæmi að ungir sem aldnir sjúklingar, sem eru vistaðir á Gunnarsholti, koma þangað og eru þá hvorki læsir né skrifandi.

Að mínu mati er fráleitt að loka stofnun eins og Gunnarsholti þegar þörfin fyrir slíka starfsemi er fyrir hendi og verður alltaf fyrir hendi og við getum ekki neitað því. Hins vegar er nauðsynlegt að eyða óvissu hvað varðar framtíð þessarar stofnunar og þess vegna væri eðlilegt að mínu mati að gera hana sjálfstæða og gera rammasamning um reksturinn og uppbygginguna til a.m.k. fimm ára í senn. Þess vegna beini ég eftirfarandi spurningum til hæstv. ráðherra:

1. Eru fyrirhugaðar breytingar á rekstri meðferðarheimilisins að Gunnarsholti? Ef svo er, hverjar eru þær?

2. Telur ráðherra að til greina komi að gera meðferðarheimilið að Gunnarsholti að sjálfstæðri stofnun sem falli undir rekstur heilsugæslunnar í Rangárvallasýslu?

3. Er ráðherra tilbúinn til að beita sér fyrir viðræðum hlutaðeigandi aðila sem miði að slíkum breytingum og tryggi rekstrargrundvöll heimilisins?