Meðferðarheimili að Gunnarsholti

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 14:07:57 (5039)

2000-03-08 14:07:57# 125. lþ. 75.5 fundur 384. mál: #A meðferðarheimili að Gunnarsholti# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[14:07]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Vegna þess að borið hefur á góma í umræðunni áform og umræður sem áttu sér stað um þessa sömu stofnun fyrir sjö árum síðan eða þar um bil, þá vil ég taka það fram og fagna því sérstaklega að þessi mál ber nú á góma. Ég held að það sé full ástæða til þess og tek undir það með hæstv. heilbrrh. að fara í gegnum eðli, tilgang og markmið þeirrar starfsemi sem þarna á sér stað og alls ekki með þeim áformum eins og haldið hefur verið fram að áformað sé að loka stofnuninni. Það var heldur ekki uppi á teningnum fyrir sjö árum heldur hitt að fara í gegnum tilgang og eðli hennar.

Ég hef stundum velt því fyrir mér, ég hef komið að Gunnarsholti oftar en einu sinni, hvar beri að vista þá mikilvægu starfsemi sem þar fer fram. Er það endilega á vettvangi heilbrrn. eða er það e.t.v. á vettvangi hæstv. félmrh., sessunautar heilbrrh.? Er einhvers konar sambland af því tvennu? Ég tek undir að mikilvægt er að fara í gegnum þessi atriði en með því markmiði að tryggja að þessi þjónusta verði til staðar.