Skattlagning á umferð

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 14:16:14 (5043)

2000-03-08 14:16:14# 125. lþ. 75.2 fundur 369. mál: #A skattlagning á umferð# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[14:16]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Varðandi fyrri spurninguna um umhverfisskatta í umferðinni er því til að svara að engin sérstök áform eru uppi um að gera grundvallarbreytingar á þeirri gjaldtöku. Þessi fyrirspurn lýtur að tollum, bifreiðagjaldi, vörugjaldi, bensíngjaldi og þungaskatti en þar er að hluta til um að ræða markaða tekjustofna til vegamála eins og kunnugt er en að öðru leyti almenna fjáröflun í ríkissjóð. Það eru því engin sérstök áform um stórtækar breytingar í þessu efni. Hins vegar er vel fylgst með þróun mála í ráðuneytinu að því er þetta varðar. Við höfum m.a. beitt okkur fyrir nokkrum breytingum sem segja má að beri keim af því sjónarmiði sem hv. þm. spurði um.

Hér er t.d. til meðferðar í þinginu þessa dagana sérstakt frv. um ívilnun í vörugjaldi að því er varðar svokallaða tvíorkubíla. Það er m.a. gert með tilliti til umhverfissjónarmiða þannig að svarið við spurningunni er í raun einfalt. Það er engin heildarendurskoðun eða stórfelld áform uppi í þessum efni. Hins vegar er starfandi í ráðuneytinu hópur sérfræðinga sem hefur unnið að því að skoða ýmis álitamál tengd umhverfissköttum og hefur gert það um nokkra hríð án þess að út úr því hafi komið heildarendurskoðun á þessu máli.

Seinni spurningin er dálítið óvenjuleg að mínum dómi. Þar er verið að tengja saman annars vegar innheimtu bensíngjalds og þungaskatts, sem eru einmitt hinir bundnu tekjustofnar til vegagerðar í landinu, og hins vegar skyldutryggingu ökutækja sem byggir á allt öðrum forsendum. Hún byggir á ákvæðum umferðarlaga og eftir atvikum ákvæðum laga um vátryggingarstarfsemi. Markmiðið með skyldutryggingu ökutækja er að sjálfsögðu að tryggja að sá sem ekur bifreið og veldur tjóni sé fær um að greiða slíkt tjón, hafi tryggingu fyrir því. Slíkt iðgjald tekur mið af þyngd ökutækis, afli vélar og mati á hæfi vátryggingartakans til þess að aka téðu ökutæki. Þar er því um að ræða gersamlega óskylt fyrirbæri að mínum dómi, þ.e. skyldutryggingu ökutækis og svo þá innheimtu sem stunduð er í formi bensíngjalds eða þungaskatts til að fjármagna vegagerð í landinu.

Ég verð að viðurkenna að þó hér hafi verið á ferð hugvitsmaður sem gaukaði þessari hugmynd að hv. þm. þá er ég ekki enn þá búinn að ná samhenginu. Kannski þingmaðurinn skýri það betur í seinni ræðu sinni.