Skattlagning á umferð

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 14:20:35 (5045)

2000-03-08 14:20:35# 125. lþ. 75.2 fundur 369. mál: #A skattlagning á umferð# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[14:20]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Ég verð að vísu að játa að ég er ekki sérstaklega upprifinn yfir þeim. Ég hefði viljað heyra að hæstv. ráðherra hefði meiri skilning á því sem ég tel vera augljósa borðleggjandi þörf fyrir samræmda skoðun á þessu sviði, skattlagningu umferðar og framtíðarstefnumótun í þeim efnum. Ég held að við Íslendingar getum bara ekki leyft okkur að láta þessa hluti þróast algerlega tilviljanakennt og láta reka á reiðanum í fullkomnu meðvitundarleysi á sama tíma og allar aðrar þjóðir reyna að stýra þróuninni meðvitað og ekki síst í gegnum skattalegar aðgerðir. Það er í gegnum slík tæki sem stjórnvöld hafa aðgang að hlutum eins og þessum án þess að beinlínis sé skipað fyrir um hverjir geti ekið einkabílum sínum eða hverjir skuli nota almenningssamgöngur, hvort flutningar fari fram á sjó, vegum eða járnbrautum o.s.frv. Menn geta með þessum tækjum, þ.e. sköttum, stuðlað að tiltekinni þróun sem er jákvæð í umhverfislegu tilliti. Til þess að það sé hægt verður auðvitað að kortleggja sviðið og hafa einhverja samræmda stefnu. Ég leyfi mér því að ítreka það og hvetja hæstv. fjmrh. til að íhuga betur hvort ekki sé þörf á starfshópi eða samræmdu skipulögðu starfi á þessu sviði.

Hvað varðar seinni spurninguna er það misskilningur hjá hæstv. ráðherra að verið sé að hengja þetta sérstaklega við töku bensíngjalds eða þungaskatts. Hins vegar er bent á að eldsneytisnotkunin, þ.e. aksturinn í kílómetrum, geti verið andlag fyrir þessa gjaldtöku. Þá er tvennu af þrennu haldið til haga, þ.e. þyngd ökutækisins og vélarafli. Það verðleggst auðvitað í gegnum notkunina og myndar í raun mjög skynsamlegt skattandlag fyrir þessi iðgjöld. Það sem tapast að vísu, og það viðurkenni ég, er ökuferilsskrá viðkomandi ökumanns. Spurningin er hvort ekki er hægt að mæta því með einhverjum öðrum hætti.

Ég tel hugmyndina mjög áhugaverða og býðst til að halda námskeið fyrir hæstv. fjmrh. um þessa gagnmerku hugmynd.