Skattlagning slysabóta

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 14:23:26 (5047)

2000-03-08 14:23:26# 125. lþ. 75.1 fundur 332. mál: #A skattlagning slysabóta# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[14:23]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Á síðasta ári var mörgum öryrkjum gert að greiða skatt vegna slysabóta allt að sex ár aftur í tímann. Þeir stóðu í þeirri trú að bæturnar væru ekki skattskyldar. Bætur fyrir varanlegt líkamstjón sem greiðist í einu lagi eru undanþegnar tekjuskatti en bætur vegna tímabundins tekjutaps eru aftur á móti skattskyldar eins og laun. Þessar upplýsingar virðast ekki hafa skilað sér til þeirra sem fengu þessar greiðslur sl. sex ár, enda fengu þeir ekki neina launaseðla um greiðslurnar frá tryggingafélögunum né var tekin af þeim staðgreiðsla. Engar upplýsingar voru heldur gefnar um skattameðferð. Það hefur greinilega ýtt undir þá trú að hér væri um skattfrjálsar bætur að ræða og þeir því talið þær fram sem skaðabætur sem eru undanþegnar skatti. Skattstjórar skattlögðu síðan þessa tjónþola vegna þessara greiðslna allt að sex ár aftur í tímann eins og ég sagði áðan. Einhverjir kærðu þetta til yfirskattanefndar og þá var málið látið niður falla vegna annmarka á málsmeðferð. Þannig sluppu tugir við skattgreiðsluna en aðrir fengu áfram kröfu um greiðslu skattsins á bótunum frá skattstjóra.

Þarna virðist ekki eitt yfir alla látið ganga. Ég veit til þess að menn sem fengu slíka kröfu, tóku lán og greiddu skattaskuldina en hafa síðan ekki getað fengið hana endurgreidda. Þeir sem kærðu sluppu hins vegar. Ég get ekki séð annað en þarna sé mönnum mismunað og velti fyrir mér hvort þarna sé ekki um brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar ræða.

Ég spyr hæstv. ráðherra vegna þessa máls: Hversu margir voru krafðir um skatt af slysaörorkugreiðslum vegna tímabundinnar örorku á þessu tímabili? Hversu margir fengu skattinn felldan niður? Hversu margir tjónþolar hafa þegar greitt skattinn og hversu háar upphæðir er um að ræða? Hefur einhverjum verið endurgreiddur skatturinn og hvaða rök eru fyrir því að það sitji ekki allir við sama borð gagnvart þessari skattlagningu?