Skattlagning slysabóta

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 14:33:41 (5050)

2000-03-08 14:33:41# 125. lþ. 75.1 fundur 332. mál: #A skattlagning slysabóta# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[14:33]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er rétt hjá fyrirspyrjanda að það er grundvallaratriði í þessum efnum eins og í öðrum skattamálum og gæta jafnræðis. Vandinn sem upp kom í þessu máli var einmitt sá að hluti greiðenda, hluti bótaþega, sem hlaut bætur frá tryggingafélögum vegna tímabundinnar örorku, taldi þær bætur fram samviskulega og greiddi af þeim skatt, á meðan aðrir gerðu það ekki af einhverjum ástæðum, m.a. þeirri að tryggingafélög brugðust þeirri skyldu sinni að senda inn launamiða og gefa tjónþolendum upplýsingar um þessar tekjur. Þess vegna er rangt að leggja málið þannig fyrir að þeir sem töldu þetta ekki fram eigi meiri rétt en þeir sem töldu þetta fram og borguðu skatt af því frá byrjun. En vegna þess að þarna er um að ræða afbrigðilega málavöxtu að því leyti til að flestir þessara aðila hefðu eflaust reiknað með því að fá tilkynningar frá greiðendunum, þ.e. tryggingafélögunum, um þessar upphæðir í tengslum við skattframtöl sín, þá hefur verið af hálfu skattyfirvaldanna, skattstjóranna, reynt að fara eins mildilegum höndum um þessi mál og hægt er á grundvelli þeirra ívilnanaheimilda sem er að finna í 66. gr. skattalaganna. Það eru auðvitað ekki allir, sem hafa lent í slysi, sem hafa lent í mjög bágri fjárhagslegri aðstöðu, það er ekki hægt að fella alla undir þá grein, að sjálfsögðu ekki, enda væri það þá misnotkun á þeim heimildum. En aðalatriðið er að allir sitji við sama borð. Hafi það verið þannig að fólk hafi getað fengið úrskurðum skattstjóranna breytt hjá yfirskattanefnd er það vegna þess að málsatvik hafa annaðhvort verið með öðrum hætti en hjá einhverjum öðrum eða þá um er að ræða formgalla sem leiðréttist á endanum með því að skattstjóri gegnir formskyldum sínum og enduráleggur eða ákvarðar þessi gjöld upp á nýtt og þá borgar fólkið þetta bara seinna.