Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 14:47:39 (5056)

2000-03-08 14:47:39# 125. lþ. 75.6 fundur 353. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[14:47]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Undanfarin ár hefur rekstur sveitarfélaganna og fjárhagsstaða versnað og sérstaklega hjá minni sveitarfélögunum. Mjög víða nægja tekjurnar vart fyrir rekstri hvað þá framkvæmdum, svo lántaka hefur aukist og skuldastaðan versnað. Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga hefur aukið rekstrarþátt sveitarfélaganna stórlega, en tekjur hafa ekki aukist að sama skapi. Fyrir síðastliðin áramót greiddi ríkissjóður í einu lagi háar fjárhæðir til mjög margra sveitarfélaga, sem voru annars vegar fækkunarframlag og hins vegar aukið þjónustuframlag. Þetta voru háar upphæðir a.m.k. hjá þeim sveitarfélögum þar sem mikil fólksfjölgun hafði orðið síðastliðin þrjú ár. Þessir peningar bjarga a.m.k. sumum sveitarfélögum næstu eitt til tvö árin, en ekki er vitað fyrir víst um framhaldið. Það er því mjög óþægilegt fyrir sveitarfélögin hve margir óvissuþættir eru hvað varðar tekjur þeirra. En tekjustofnarnir eru eins og menn vita útsvarstekjur, fasteignagjöld, framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem aftur skiptist í tekjujöfnunarframlag, þjónustuframlag og grunnskólaframlag og svo núna á síðastliðnu ári fólksfækkunarframlag. Tekjujöfnunarframlögin sem taka mið af útsvarstekjum o.fl. eru oft nokkuð rokkandi á milli ára eins og á við um útsvarstekjurnar sjálfar, þau eru lægri til lítilla sveitarfélaga á hvern íbúa en þeirra sem stærri eru, þ.e. miðað við 300 íbúa mörkin.

Afar margir íbúar í dreifbýlinu eru óánægðir með að greiða jafnhá fasteignagjöld af íbúðarhúsum eða íbúðum sínum og þeir sem búa þar sem söluverð húsnæðis er margfalt hærra. Þá er erfitt að leggja hæstu leyfilegu álagningu fasteignagjalda á eignir í dreifbýli þar sem tekjur eru miklu lægri en víða á stærri stöðum. Ef breyta á fasteignagjöldum á landsbyggðinni með hliðsjón af söluverði fasteigna þarf að bæta sveitarfélögunum tekjutapið. Margt fleira mætti hér tína til sem lýsir því að rekstur sveitarfélaganna hefur þyngst. Því ber ég hér upp fsp. fyrir hönd hv. þm. Helgu Erlingsdóttur til hæstv. félmrh. um endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga:

,,Hvað líður vinnu nefndar um endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga og hvenær er gert ráð fyrir að hún ljúki störfum og skili niðurstöðum?``