Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 15:02:11 (5063)

2000-03-08 15:02:11# 125. lþ. 75.6 fundur 353. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[15:02]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ekki veit ég hvernig það er eystra en þannig háttar til í mínu kjördæmi að það er síður en svo frekar brottflutningur fólks úr minni sveitarfélögunum en þeim stærri. Yfirleitt er fólksflóttinn úr stærri sveitarfélögunum. Nóg um það.

Ég tel að tekjustofnanefndin vinni alveg eðlilega og tek undir það sem hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður nefndarinnar, sagði að það sem máli skiptir er að hún skili af sér tillögum þannig að hægt verði að ganga frá tekjustofnum fyrir næstu fjárlagagerð. Það er það sem máli skiptir.

Varðandi flutning verkefna þá er mjög mikilvægt að flytja sem mest af verkefnum til sveitarfélaganna og það er eðlileg byggðastefna að vinna í heimabyggð þau verkefni sem hægt er að vinna þar fremur en að gera það fyrir sunnan. Að því vil ég vinna og styrkja sveitarstjórnarstigið.

Skattheimta á þegnanna má ekki vera mismunandi. Hún á að vera sem jöfnust eða sem réttlátust. En eins og nú háttar til er hún í mörgum tilfellum þyngri á landsbyggðinni. Ég tala nú ekki um skatt sem lagður er t.d. á flutninga á landsbyggðinni. Hann er fyrst og fremst borgaður af landsbyggðinni. Eins er með fasteignagjöldin sem lögð eru á eignir eða stofn sem er miklu hærri en hann á að vera.

Peningar verða auðvitað að fylgja þeim verkefnum sem sveitarfélögin taka við. Grunnskólinn fékk meira en samið var um. Samkvæmt grunnskólalögunum er reyndar líka verið að endurskoða kostnaðinn við grunnskólann og það er prýðileg sátt í þeim sveitarfélögum sem hafa tekið við málefnum fatlaðra um þá fjármuni sem þau hafa fengið, með einni undantekningu.