Vatnsveitur í dreifbýli

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 15:10:52 (5067)

2000-03-08 15:10:52# 125. lþ. 75.7 fundur 354. mál: #A vatnsveitur í dreifbýli# fsp. (til munnl.) frá félmrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[15:10]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta misrétti sem hefur viðgengist varðandi vatnsveitur til sveita á bændabýlum nú nokkur ár er náttúrlega algjörlega til skammar. Ég veit ekki betur en hæstv. félmrh. hafi hér áður verið með yfirlýsingu þess efnis að það hefði jafnvel átt að vera búið að koma þessu réttlætismáli í lag. Ég fagna þeim áherslum sem hann leggur á þetta, en ég hefði gjarnan viljað sjá þetta vera fyrr komið í höfn og þetta ætti ekki að þurfa dragast með því að tengja það endilega endurskoðun á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Það ætti að finnast önnur leið til að gera þessa brýnu réttlætisleiðréttingu því þetta misrétti hefur varað nú í nokkur ár og tækifæri hafa gefist til að leiðrétta það. Ég fagna einlægum vilja ráðherrans og dreg hann ekkert í efa, en þetta þarf að gerast og því fyrr, því betra.