Vatnsveitur í dreifbýli

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 15:13:12 (5069)

2000-03-08 15:13:12# 125. lþ. 75.7 fundur 354. mál: #A vatnsveitur í dreifbýli# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[15:13]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna góðum undirtektum hæstv. félmrh. við málið, en vil benda á eftirfarandi. Þetta er stórmál. Vatn er ein af grunnþörfum mannsins. Ég held að þetta sé ekki svo flókið. Það má vel vera milliganga sveitarfélagsins gagnvart jöfnunarsjóðnum. Málið snýst ekki um það. Ég held að málið snúist fyrst og fremst um að þessi minni sveitarfélög hafa ekkert bolmagn til að reka vatnsveitur. Þær verða að vera í eigu bændanna. Við erum náttúrlega fyrst og fremst að hugsa um bændabýli í þessu samhengi. Bændasamtökin þurfa kannski ekkert að vera milliliður í því sambandi. Sveitarfélagið getur vel verið sá milliliður. Ég held að allir geti sæst á að fyrirkomulagið sem var með 50% framlag gekk ágætlega. Þá er þetta bara spurning um milligöngu sveitarfélagsins í stað Bændasamtakanna og er ekkert stórmál. Þetta ætti að vera auðvelt í framkvæmd á þennan hátt. Það er heimild til þess að fjármagna þetta í gegnum jöfnunarsjóðinn og það er ekkert um annað að ræða í þessu sambandi en að hafa þá milligöngu sveitarfélagsins. En ég held að það sé borin von að ætla sveitarfélögum í strjálbýlinu að reka vatnsveitur á býlunum sjálfum. Ég held að fyrirkomulagið eins og það var, að bændurnir sjálfir eigi inntökumannvirki og stofnlögn hafi gefist ágætlega. Hér er um stórmál að ræða eins og bent hefur verið á út frá t.d. matvælaframleiðslu því að ferskt vatn og ómengað er algjör forsenda þess að hægt sé að framleiða heilnæma landbúnaðarvöru. Við megum ekki láta okkar eftir liggja til að sá grunnþáttur sé í eins fullkomnu lagi og hægt er að hugsa sér. Það er grunnatriði. Þetta eru grunnþarfir samfélagsins.