Vatnsveitur í dreifbýli

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 15:15:25 (5070)

2000-03-08 15:15:25# 125. lþ. 75.7 fundur 354. mál: #A vatnsveitur í dreifbýli# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er nokkuð til í því sem síðasti ræðumaður sagði um grunnþarfirnar. Ég sat ráðstefnu í Istanbúl fyrir tveim, þrem árum síðan þar sem á það var bent af hálfu aðalritara Sameinuðu þjóðanna að vatnsskortur væri líklega mesta vandamálið sem að veröldinni steðjaði, þ.e. að aðgengi að góðu vatni væri mannkyninu dýrmætast. Og það er feiknalega mikilvægt fyrir heimilin að hafa aðgengi að góðu og hreinu vatni og það þarf að vanda til þess arna, bæði vegna búsþarfa og ferðaþjónustu og það hefur ekkert verið ofsagt þar um. En vatnsveitur eru teknar út eftir á og þess vegna er þetta ekkert forhlaupin tíð og greiðslur eiga að geta komist í réttar hendur þrátt fyrir að búið sé að byggja vatnsveiturnar í einhverjum tilfellum. Það hefur borið á tregðu hjá sumum sveitarfélögum við að blanda sér í að reka vatnsveitur eða taka þátt í þessum vatnsveituframkvæmdum. Þar fyrir utan hefur upphæðin verið mismunandi eftir sveitarfélögum. Ég held að miklu réttlátara og einfaldara og eðlilegra sé að fela Bændasamtökunum að gera þetta. En til þess þarf lagabreytingu, þ.e. til þess að það sé heimilt að jöfnunarsjóðurinn greiði Bændasamtökunum eina upphæð sem Bændasamtökin rökstyddu með umsókn í jöfnunarsjóð. Ég held að þetta sé einfaldasta leiðin og ég veit ekki annað en að um málið verði fjallað á yfirstandandi búnaðarþingi.