Aðbúnaður þroskaheftra og fatlaðra á Landspítala

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 15:20:46 (5072)

2000-03-08 15:20:46# 125. lþ. 75.8 fundur 363. mál: #A aðbúnaður þroskaheftra og fatlaðra á Landspítala# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[15:20]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Sú fyrirspurn sem lögð var fyrir mig á þskj. 618 frá hv. fyrirspyrjanda hljóðaði svo:

,,Hvað kemur í veg fyrir að þeir þroskaheftu og fötluðu einstaklingar sem dvöldust á Kópavogshæli og dveljast enn í húsnæði Ríkisspítala fái þjónustu í samræmi við lög um málefni fatlaðra?``

Þetta var fyrirspurnin sem lögð var fram á þingskjalinu og ég mun reyna að svara henni.

Sjúklingar og vistmenn sem búa á endurhæfingardeild og hæfingardeild Landsspítalans og njóta þjónustu samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og deildin er skilgreind sem sérhæft sjúkrahús. Í þeim lögum er í 1. gr. kveðið á um að allir landsmenn skuli eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma sem tök eru á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði. Og deildin í Kópavogi er sjúkrahús samkvæmt 24. gr. laganna. Með setningu laganna um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, varð engin breyting á lagalegri stöðu Kópavogshælis. Nú heitir það endurhæfingardeild og hæfingardeild Landsspítalans. Þar af leiðandi varð engin breyting á réttarstöðu fólksins sem þar býr. Í greinargerð með frv. til þeirra laga var bent á að Kópavogshælið væri rekið sem sjúkrahús og vísað í því sambandi til reglugerðar nr. 386/1985. Þar er um að ræða sérstaka reglugerð um stofnunina sem undirrituð var af heilbrrh. Þar segir jafnframt í greinargerðinni að Kópavogshælið verði rekið sem sjúkrahús en ekki sem vistheimili þannig að kjarni málsins er sá að deildin er rekin sem stofnun samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu en ekki samkvæmt lögum um málefni fatlaðra.

Sú félagslega þjónusta sem lög um málefni fatlaðra taka til nær ekki til þeirra sem falla undir lög um heilbrigðisþjónustu, enda er í þeim lögum gert ráð fyrir að þeir sem búa á heilbrigðisstofnunum fái þar alla nauðsynlega þjónustu. Eina skynsamlega leiðin til þess að tryggja að fatlaðir einstaklingar sem enn búa á deildinni í Kópavogi fái notið þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðra er sú að hraða flutningi þeirra af deildinni og í sambýli eða í einstaklingsíbúðir sem reknar væru samkvæmt lögum um málefni fatlaðra eða nýjum lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Með því móti mundu einstaklingarnir fara að njóta þjónustu samkvæmt þeim lögum, þ.e. lögum um málefni fatlaðra eða lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Rétt fyrir kosningarnar 1995 var gerður samningur á milli félmrn. og heilbrrn. um útskrift 37 vistmanna af deild Landspítalans í Kópavogi yfir á sambýli á vegum félmrn. 34 hafa þegar útskrifast og búa í sambýlum. Þrír af þessum hópi dvelja enn á deildinni í Kópavogi. Þessi gjörningur var gerður án þess að nokkurt fjármagn væri fyrir hendi til þess að taka við viðkomandi einstaklingum. Þessir einstaklingar af Kópavogshælinu hafa haft forgang því samningurinn hefur bundið okkur og á meðan hafa safnast upp biðlistar hjá fötluðum fyrir úrræði. Það hafa sem sagt 34 útskrifast nú og búa á sambýlum, en þrír úr þessum hópi dvelja enn í deildinni í Kópavogi. En þessir þrír munu flytjast á sambýli í Garðabæ nú í apríl.

Fjöldi vistmanna á deild Ríkisspítalanna í Kópavogi er alls 63. 25 þeirra eru sjúklingar og verða áfram á deildinni en 35, ef ekki eru taldir með þeir framangreindu þrír sem flytja í vor, eru fatlaðir einstaklingar sem geta flust út í bæ samkvæmt upplýsingum yfirlæknis. Enn fremur hafa fjórir eða fimm einstaklingar flust í sambýli sem ekki voru á upphaflega forgangslistanum sem gerður var á sínum tíma þannig að 41 eða 42 einstaklingar hafa flust í sambýli á undanförnum árum.

Samkvæmt læknismati geta sem sagt 35 einstaklingar til viðbótar flust á sambýli út í bæ eða út í samfélagið. Að sjálfsögðu er stefnt að því og nefnd um biðlista eftir úrræðum fyrir fatlaða skilaði tillögum 1998 og biðlistunum á að eyða á næstu fimm árum og það hefur verið unnið sl. tvö ár samkvæmt tillögum þessarar nefndar. Og á árunum 1999 og 2000 verða tekin í notkun samtals 13 sambýli.