Aðbúnaður þroskaheftra og fatlaðra á Landspítala

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 15:27:17 (5074)

2000-03-08 15:27:17# 125. lþ. 75.8 fundur 363. mál: #A aðbúnaður þroskaheftra og fatlaðra á Landspítala# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[15:27]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Ég skil þau þannig að áætlunin sem hæstv. ráðherra hefur látið gera í framhaldi af ákvörðun biðlistanefndarinnar sé að stefnt verði að því á næstu fimm árum að þessir 35 einstaklingar sem búa á Ríkisspítölunum í Kópavogi komist á sambýli og fái þá þjónustu við hæfi. Ég vil minna á að 1995 svarar Framsfl. því aðspurður í tímariti Þroskahjálpar um það hvað eigi að gera í málefnum þeirra sem vilja flytjast frá endurhæfingardeildinni í Kópavogi, þá svarar hann þannig:

,,Þetta er mál sem stjórnvöld verða skilyrðislaust að leysa. Fatlaðir eiga ekki undir neinum kringumstæðum að líða fyrir það sem þriðji aðili í deilu stofnana og ráðuneyta.``

Það vita allir sem vilja vita það að hér hefur verið deila milli ráðuneyta, milli félmrn. og heilbrrn. Og þetta fólk líður fyrir þessa deilu. Þroskahjálp bendir á það í ályktun sinni sem ég las hér upp áðan, herra forseti, að það á auðvitað að vera hægur vandi að leysa þetta. Það þarf að selja eignir Kópavogshælis sem voru reistar fyrir fé sem kom úr fjárveitingum ætluðum til málefna fatlaðra og láta féð fylgja einstaklingunum þannig að þeir geti fengið þjónustu við hæfi. Við getum ekki beðið með það í fimm ár í viðbót. Það eru fimm ár síðan Framsfl. sagði þetta opinberlega og er margbúinn að lofa þessu fólki og ættingjum þess að það fái úrlausn mála, fái þjónustu við hæfi, eins og lög kveða á um. Ég get ekki sætt mig við það að enn eigi að bíða í fimm ár eftir að þetta fólk fái þá þjónustu sem því ber. Það verður að taka betur á málunum. Loforðin hafa verið slík að það er ekki stætt á því fyrir hæstv. ráðherra að draga þetta fólk á þjónustu í fimm ár í viðbót.