Aðbúnaður þroskaheftra og fatlaðra á Landspítala

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 15:29:40 (5075)

2000-03-08 15:29:40# 125. lþ. 75.8 fundur 363. mál: #A aðbúnaður þroskaheftra og fatlaðra á Landspítala# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[15:29]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég get ekki hér og nú slegið föstum dagsetningum, en ég vil taka fram að það er ekkert alslæmt að búa á Kópavogshælinu og það hafa meira að segja komið upp nokkur vandamál hjá sumum þeirra sem hafa verið útskrifaðir af Kópavogshælinu, að vinahópurinn hefur verið klofinn og fólki komið í nýtt umhverfi o.s.frv. og það hafa skapast vandamál í einstöku tilfellum út af því.

[15:30]

Það verður faglegt mat að ráða hverjir hafa forgang til þeirra úrræða sem til eru á hverjum tíma og suma vantar alveg úrræði. Við megum ekki gleyma því að suma vantar alveg úrræði og búa við verri aðstæður en eru á Kópavogshælinu og það er hörmulegt upp á það að horfa. Því miður. Þróun í búsetumálum fatlaðra er mjög ör. Við horfum upp á að stofnanir sem byggðar voru af miklum stórhug og fórnfýsi og mikilli framsýni að menn héldu fyrir nokkrum árum, eins og t.d. Vonarland á Egilsstöðum og Bræðratunga á Ísafirði, þykja vera orðnar úreltar. Þá var farið að byggja sambýli. Nú þykir æskilegasta búsetan að búa í litlum íbúðum eða búa í einstaklingsíbúðum og það er æ meira að færast í það horf að það verði úrræðið fyrir þá sem á annað borð eru nokkuð sjálfbjarga eða þurfa ekki sólarhringshjúkrun. Sorgin við þetta er sú að bygging sambýlanna, þessara sérhæfðu sambýla, hefur reynst alveg ofboðslega dýr og það er komið svo langt úr hófi þegar plássið er farið að kosta á milli 10 og 20 millj. fyrir hvern einstakling, að litlar íbúðir er betra úrræði og ódýrara en sambýli.