Undanþágur frá greiðslu fasteignaskatta og gatnagerðargjalda

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 15:35:25 (5077)

2000-03-08 15:35:25# 125. lþ. 75.9 fundur 412. mál: #A undanþágur frá greiðslu fasteignaskatta og gatnagerðargjalda# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[15:35]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hef látið taka saman skrá um þau tilvik þar sem undanþágur eru frá greiðslu. Undanþegin fasteignaskatti eru Orkustofnun, Rafmagnsveitur ríkisins, Rafmagnseftirlit ríkisins og Jarðboranir ríkisins samkvæmt orkulögum, Orkubú Vestfjarða er einnig undanþegið fasteignaskatti. Undanþegin fasteignaskatti og gatnagerðargjaldi eru samkvæmt sérlögum þar um Norræni tækni- og iðnþróunarsjóðurinn, Byggðastofnun, Þróunarsjóður fyrir Færeyjar, Grænland og Ísland, Norrænn þróunarsjóður, Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins, norrænt fjármögnunarfélag á sviði umhverfisverndar, skrifstofa Útflutningsráðs Íslands, Þróunarsjóður sjávarútvegsins og Lýðveldissjóður. Þessi fyrirtæki voru undanþegin fasteignasköttum og gatnagerðargjöldum. Síðan eru undanþegin fasteignasköttum samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga, sjúkrastofnanir og lóðir samkvæmt heilbrigðislögum, kirkjur og lóðir, skólar og lóðir, heimavistir og lóðir, barnaheimili og lóðir, íþróttahús og lóðir, skipbrotsmannaskýli og lóðir, sæluhús og lóðir, bókasöfn og önnur safnahús og lóðir. Undanþegnar gatnagerðargjöldum eru heilsugæslustöðvar, sjúkrabyggingar, framhaldsskólar, kirkjur og lögboðin prestssetur.

Herra forseti. Ég vona að þessi upptalning sé fullnægjandi. Það er vissulega rétt hjá hv. þm. að þarna er um talsvert miklar undanþágur að ræða, en spurningin er hvort nokkuð óeðlilegt er við það að slík starfsemi sé undanþegin. Það getur verið viðkomandi sveitarfélagi mjög mikilvægt og sveitarfélagi til mikilla hagsbóta að hafa slíka starfsemi, jafnvel þó að þessar undanþágur séu í gildi. Ég mun að lokinni þessari umræðu gefa hv. þm. ljósrit af þessari skrá honum til fróðleiks.