Kjör stjórnenda Fjárfestingarbanka atvinnulífsins

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 15:45:31 (5081)

2000-03-08 15:45:31# 125. lþ. 75.11 fundur 404. mál: #A kjör stjórnenda Fjárfestingarbanka atvinnulífsins# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[15:45]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Tilefni þeirrar fsp. sem ég beini til hæstv. viðskrh. eru þær upplýsingar sem fram hafa komið um launakjör stjórnenda Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Þau launakjör eru svo yfirgengileg og úr takti við allt í þjóðfélaginu að manni ofbýður. Meira að segja að tveim af stærstu eigendum hans blöskraði svo að annar, sem er fulltrúi Lífeyrissjóðs verslunarmanna og stór atvinnurekandi hér í bæ, kallaði þau óhóf og hinn, Halldór Björnsson, formaður Eflingar, sem er stór eigandi í Framsýn, sem er einn stærsti eigandi FBA, varð orðlaus og taldi að endurskoða þyrfti afstöðu Framsýnar í bankanum enda er hann í forsvari fyrir láglaunafólk sem berst nú harðri kjarabaráttu fyrir leiðréttingu á kjörum sínum.

Það hefur komið fram að fimm framkvæmdastjórar hjá FBA hafi fengið um 85 millj. kr. í árstekjur hjá bankanum á síðasta ári í laun og bónus, auk þess sem þeir fengu um 35 millj. kr. í arð vegna hlutabréfaeignar sinnar í bankanum. Tekjur þessara stjórnenda hafa því verið að meðaltali til hvers og eins um 25 millj. kr. Fyrirkomulag á bónusgreiðslum sem voru 190 millj., eða að meðaltali um 2 millj. á hvern starfsmann, eru líka með allsérstæðum hætti enda algengara og eðlilegra að um sé að ræða jafnaðargreiðslur til allra starfsmanna þegar greiddur er bónus fremur en að stjórnendur og helstu yfirmenn fái obbann af greiðslum og margfalt hærri greiðslur en aðrir starfsmenn. Fram hefur komið að t.d. Íslandsbanki og tryggingafélögin hafi greitt jafnar bónusgreiðslur til allra starfsmanna. Einnig hefur heyrst að mjög háar arðgreiðslur, þær hæstu sem þekkst hafa, hafi verið ákveðnar eða ákvarðaðar þegar bankinn var enn í meirihlutaeign ríkisins. Allt bendir til að kjör stjórnenda og fyrirkomulag bónuss eða afkomutengdra kaupauka hafi einnig verið ákveðið þegar bankinn var í meirihlutaeign ríkisins en samkvæmt lögum um FBA frá 1997 skipuðu iðnrh. og sjútvrh. þrjá menn í stjórnina og samtök atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi og iðnaði skipuðu tvo. Því þarf viðskrh. að svara því og hef ég beint þeirri fsp. til hans hvaða hlut ríkisvaldið á í þessum ákvörðunum um ofurkjör stjórnenda FBA. Fyrirspurnin sem ég beini til hæstv. ráðherra er svohljóðandi:

1. Hvaða ákvarðanir voru teknar um laun og önnur kjör, þar með talið lífeyrisréttindi, stjórnenda Fjárfestingarbanka atvinnulífsins meðan bankinn var í meirihlutaeign ríkisins?

2. Hverjar voru heildarlaunagreiðslur til stjórnar annars vegar og stjórnenda hins vegar 1997--1999, sundurliðað eftir árum og tegundum greiðslna, sem og fjölda stjórnenda?

3. Átti ráðherra eða fulltrúar hans í stjórn bankans einhvern þátt í ákvörðun um afkomutengdan kaupauka til starfsmanna?

4. Hvaða ákvarðanir voru teknar um arðgreiðslur meðan bankinn var í meirihlutaeign ríkisins?

5. Hver er skoðun ráðherra á launakjörum stjórnenda bankans og fyrirkomulagi á afkomutengdum kaupauka?