Kjör stjórnenda Fjárfestingarbanka atvinnulífsins

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 16:02:05 (5090)

2000-03-08 16:02:05# 125. lþ. 75.11 fundur 404. mál: #A kjör stjórnenda Fjárfestingarbanka atvinnulífsins# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[16:02]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Þá liggur það fyrir að fulltrúar ríkisvaldsins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hafa tekið þessar ákvarðanir um ofurkjör til stjórnenda bankanna. Ef marka má orð ráðherrans, með vitneskju ráðherra, vegna þess að hæstv. ráðherra sagði að ráðherra hefði ekki átt beinan þátt í þessari ákvörðun. En átti hann óbeinan þátt í því með að vita um þessar ákvarðanir þegar þær lágu fyrir og áður en þær voru teknar? Ég trúi því að þetta hafi verið gert með vitneskju ráðherrans, fulltrúar ráðherranna hafa ekki tekið þessar ákvarðanir nema með vitneskju hans. Það er til skammar þegar það liggur fyrir að fulltrúar ríkisvaldsins hafi vogað sér rétt fyrir kjarasamninga að taka slíkar ákvarðanir um ofurkjör til stjórnenda bankanna. Þetta mun örugglega verða alvarlegt innlegg inn í þá kjarabaráttu sem fer nú fram. Það liggur sem sagt fyrir að ákvarðanir um þessi ofurkjör hafi verið teknar af fulltrúum ríkisvaldsins. Það liggur fyrir að ákvarðanir um fyrirkomulagið á bónusgreiðslunum hafa líka verið teknar af fulltrúum ríkisvaldsins sem er þannig að það mismunar fólki innan bankans, vegna þess að þetta eru ekki jafnaðargreiðslur eins og þekkist víða annars staðar. Og ákvarðanir um arðgreiðslurnar hafa greinilega verið teknar líka af fulltrúum ríkisvaldsins. Þessar ákvarðanir allar munu mismuna mjög og auka á tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu. Það liggur fyrir. Það mun líka hafa þau áhrif að gerð verður krafa í öllum stærri fyrirtækjunum um sömu ofurkjörin til stjórnenda þeirra stofnana. Það mun enn auka á mismuninn í þjóðfélaginu og ljóst að minna er þá til skiptanna til annarra launþega.

Herra forseti. Málið er grafalvarlegt þegar það liggur fyrir að ríkisvaldið hefur átt þátt í þeim ofurkjörum sem stjórnendur hafa fengið. Þessi ákvörðun ríkisvaldsins er til skammar og sem blaut tuska framan í launafólk sem stendur núna í harðri kjarabaráttu.