Kjör stjórnenda Fjárfestingarbanka atvinnulífsins

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 16:04:26 (5091)

2000-03-08 16:04:26# 125. lþ. 75.11 fundur 404. mál: #A kjör stjórnenda Fjárfestingarbanka atvinnulífsins# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[16:04]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég ætla fyrst að svara fimmtu spurningunni frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Þar var spurt um skoðun mína á launakjörum stjórnenda FBA og fyrirkomulagi á afkomutengdum kaupauka.

Umræðan að undanförnu hefur fyrst og fremst beinst að FBA vegna árangurstengdra launagreiðslna sem vegna afar mikils hagnaðar á síðasta ári hækkaði laun allra starfsmanna bankans verulega. Ég er fylgjandi árangurstengdu launakerfi. Slík kerfi eru til þess fallin að tengja betur saman hagsmuni hluthafa og starfsmanna og eru m.a. þekkt í atvinnulífi hér á landi, það hefur reynst vel hjá FBA.

Það er ekki að undra að há laun stjórnenda FBA hafi valdið undrun og reiði hjá mörgum almennum launþegum sem standa nú í erfiðri kjarabaráttu. Vegna óvenjumikils hagnaðar voru laun stjórnenda bankans afar há á síðasta ári. Ég hefði sjálf ekki getað skrifað upp á svo há laun hefði málið komið til kasta minna. En eitt verður að hafa í huga. Það þótti djörf ákvörðun á sínum tíma að ráða unga menn til að stjórna bankanum. Þeir fengu það verkefni að skapa verðmæti úr gömlu fjárfestingarsjóðunum. Það hafa þeir gert eftirminnilega. Ríkið fékk 15 milljarða fyrir gömlu sjóðina sem stjórnarandstaðan vildi afhenda viðskiptabönkunum. Til að ná þessum árangri þurfti nýja hugsun og öguð vinnubrögð. 100 starfsmenn FBA og fjármagnsmarkaðurinn allur hefur notið góðs af. Mikilvægt er að hafa í huga að á verðbréfamarkaði hafa skapast hundruð vellaunaðra starfa sem ungt háskólagengið fólk hefur ráðist til.

Ég vil að síðustu segja, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin kom að sjálfsögðu ekki að þessari ákvörðun um þessar launagreiðslur. Það er því rangfærsla hjá hv. þm. Þegar ég sagði í ræðu minni áðan að ráðherra hefði ekki átt beinan þátt í ákvörðunum var ég að tala um ákvörðunum um afkomutengdar launagreiðslur, ekki um þessi launakjör. Sú stjórn sem sat til síðasta aðalfundar var upphaflega skipuð fulltrúum ríkisvaldsins í stjórninni. Eftir að ríkið seldi allan hlut sinn hélt stjórnin áfram til aðalfundar en eftir að ríkið á ekkert lengur í bankanum er stjórnin að sjálfsögðu á ábyrgð nýrra eigenda.