Lyfjalög og almannatryggingar

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 10:57:22 (5100)

2000-03-09 10:57:22# 125. lþ. 76.1 fundur 401. mál: #A lyfjalög og almannatryggingar# (Lyfjamálastofnun o.fl.) frv. 108/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[10:57]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli mínu áðan sýnist mér skynsamlegt að sameina þessar tvær stofnanir, með því er verið að nýta vel fjármagn og samnýta þekkingu. Þegar það starfsfólk sem þarna er um að ræða er komið í eina stofnun og getur kannski verið með verkaskiptingu sín á milli á annan hátt en áður hlýtur að vera hægt að þróa stofnun sem eigi eftir að geta orðið góð. Því er ekki að neita að alltaf er vandasamt þegar setja skal ákveðinn skattstofn á leyfi vegna þess að það er ábyggilega talsvert öðruvísi að meta tekjur af slíkum skattstofni en af föstu gjaldi.

Þetta á samt allt eftir að koma í ljós og mér finnst mikilvægt að hafa velt upp þessum spurningum. Ég átti líka von á því að þarna væru fyrst og fremst orðalagsbreytingar og það hefur verið staðfest. En mig langar að bregðast við þeim orðum sem komu fram hjá öðrum þingmanni Samfylkingarinnar, Gísla S. Einarssyni, um lyfjaverð. Ég er sammála því að við Norðurlandabúar viljum hafa eftirlit og við viljum búa við öryggi og að búið sé að kanna lyf og tryggja að óhætt sé að hleypa þeim á íslenskan markað. Ég geri mjög mikinn mun á þeim löndum þar sem frelsi í lyfjasölu er mjög mikið og eftirlit er takmarkaðra en hjá hjá okkur og svo aftur á móti samanburði okkar við Norðurlöndin.

Í mörgum tilfellum er hægt að fá ákveðin lyf í Danmörku sem er alls ekki hægt að fá hér. Það er spurning hvort við séum e.t.v. kaþólskari en páfinn eins og sagt er varðandi eftirlit á lyfjum. Það tekur mjög langan tíma að fá hingað inn til landsins ný lyf sem geta valdið straumhvörfum í lífi fólks. Þá er ég ekki endilega að tala um lyf við lífshættulegum sjúkdómum og fá oft ákveðinn forgang í skoðun hér og kannski takmarkað leyfi inn í landið og eru bundin ströngum skilyrðum. Mörg dæmi um eru að menn reyni að verða sér úti um slík lyf í nágrannalöndunum við svokölluðum þjáningarsjúkdómum, svo sem gigtarsjúkdómum, sem eru ekki hættulegir, af því að þau fást ekki inn í landið. Meira að segja þeir einstaklingar sem hafa unnið mjög mikið með nýjar leiðir í lækningum eins og hinn ágæti Kópavogsbúi Ævar Jóhannesson sem framleiðir lyf fyrir krabbameinssjúklinga upp á eigin reikning og kostnaðarlaust fyrir þá sem vilja sækja til hans þennan lífsins elexír. Mér er kunnugt um að hann hefur þurft að fara mjög þunga og trega leið í gegnum kerfið til að fá heimild til að flytja inn lyf sem eru seld annars staðar og hafa reynst vel við þeim alvarlegu sjúkdómum sem fólk er að kljást við sem leitar til hans.

Þess vegna vil ég líka vekja athygli á því að e.t.v. erum við of ströng varðandi ýmis lyf sem eru komin á markað í þeim nágrannalöndum sem við miðum okkur við eins og hómópatalyf sum hver. Við erum mjög treg og tortryggin varðandi ýmislegt í þessum þáttum og vil ég nota tækifærið í umræðum um nýja stofnun, Lyfjamálastofnun, til að koma þessum ábendingum til ráðherra.