Félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 11:44:19 (5111)

2000-03-09 11:44:19# 125. lþ. 76.2 fundur 398. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunarbætur) frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[11:44]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki hægt að tala um heilbrigða og eðlilega þróun þegar talað er um fíkniefnaneyslu í þessari umræðu. (Gripið fram í.) Hér er um dauðans alvöru að ræða.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir lætur sig gjarnan varða mál þeirra sem minni máttar eru. (Gripið fram í.) En það er dálítið merkilegt, þegar menn standa hér í pontu, að þá hefur hv. þm. alltaf gríðarlegan áhuga á að grípa fram í fyrir þeim sem er að tala.

Þegar hv. þm. talaði um mill-eitthvað áðan og eðlilega þróun þá veit ég að það var ekki með vilja gert, að tala með þessum hætti. Auðvitað er ekki um neina eðlilega þróun að ræða í sambandi við fíkniefni. Við verðum öll, hvert einasta mannsbarn þjóðarinnar, að vera vel á verði. Ég skal sjá til þess að hv. þm. fái það nákvæmlega niður skrifað, hvert einasta atriði í þessum 430 millj. sem ég var að tala um. Ég mun sjá til þess að aðstoðarmaður heilbrrh., sem er mjög skammt undan, komi þeim upplýsingum til hv. þm. áður en langt um líður.