Félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 11:45:46 (5112)

2000-03-09 11:45:46# 125. lþ. 76.2 fundur 398. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunarbætur) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[11:45]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að heyra að tölurnar eru alveg á hreinu og aðstoðarmaður heilbrrh. muni finna þær og koma þeim til mín. Hins vegar er ég ekki að hafa þetta neitt í flimtingum, hv. þm. Ég er að tala í alvöru um þessi mál. Við höfum horft upp á hvernig staðan er á þessum vettvangi og tilefni umræðunnar er hvernig ástandið er á sumum heimilum þar sem börn búa og foreldrar þurfa að horfa upp á börn sín þjást af vöntun í einhver lyf vegna þess að þau eru orðin svo háð þeim. Ég held að það sé sama hvort við erum framsóknarmenn eða samfylkingarmenn eða í öðrum flokkum að við teljum þetta mál alls ekki einkamál neins eins manns, eins þingmanns, eins ráðherra eða eins stjórnmálaflokks. Þetta er mál okkar allra og áfengissýkin og eiturlyfjaneyslan er eitt mesta heilbrigðisvandamál samfélagsins. Þess vegna verðum við að halda vöku okkar.

Ég þakka fyrir ef þessar upplýsingar koma til mín skriflega, þá get ég sýnt öðrum þær. Ég vona að þær séu ekki í þeim anda sem ég var að tala um áðan, heldur það sem eðlilegt má teljast. Það er ekki eðlilegt að börn ánetjist áfengi eða eiturlyfjum en það er eðlilegt að við bregðumst við því á venjulegan og hefðbundinn hátt. Það er það sem ég vildi segja.