Félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 11:50:39 (5114)

2000-03-09 11:50:39# 125. lþ. 76.2 fundur 398. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunarbætur) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[11:50]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir svolítið leitt að hæstv. ráðherra taki ekki heils hugar undir frv. Hæstv. ráðherra talar um að forgangsraða og leggur áherslu á forvarnir. Ég tel það forvarnastarf að greiða foreldrum þeirra barna sem eiga við alvarlegan fíkniefnavanda að stríða umönnunargreiðslur þannig að þeir geti sinnt þeim. Það er mjög mikilvægt forvarnastarf og það geta foreldrarnir ekki innt af hendi nema þeir fái stuðning frá hinu opinbera. Þessir foreldrar eru ekkert síður undir álagi en foreldrar annarra alvarlegra sjúkra barna sem njóta umönnunargreiðslna. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna eiga þessir foreldrar síður að njóta stuðnings úr almannatryggingunum en þeir foreldrar sem eiga alvarlega sjúk og fötluð börn? Ég mundi gjarnan vilja, herra forseti, fá rök hæstv. ráðherra. Ég veit að ráðherrann hefur mikinn skilning á forvörnum og hefur margítrekað það og lýst því yfir að það eigi að setja pening í þær. Hvað er meiri forvörn en að styðja foreldra í því að geta sinnt börnum sínum með þessum greiðslum? Þetta eru ekki háar upphæðir og margt þetta fólk verður að vera frá vinnu til að geta sinnt börnunum. Hvaða rök eru fyrir því að þessir foreldrar eigi ekki að njóta þessa stuðnings?