Félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 11:52:49 (5115)

2000-03-09 11:52:49# 125. lþ. 76.2 fundur 398. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunarbætur) frv., Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[11:52]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég átti satt að segja von á því að hæstv. ráðherra kæmi og svaraði þeirri spurningu sem var beint til hennar í andsvörum þingmanna en ég átti líka von á því að fá svör við þeim spurningum sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra, m.a. hvað varðar skoðun á kjörum foreldra ungra fíkniefnaneytenda og þá ekki eingöngu það sem lýtur að umönnunarlaunum þar sem hér er aðeins tekinn út einn þáttur heldur ekki síður reglugerð sem var í endurskoðun fyrir ári um ferðakostnað og aðstoð til foreldra ungra fíkniefnaneytenda svo þeir mættu taka þátt í meðferðinni.

Hæstv. ráðherra segir að aldrei verði lagt nóg til þessa málaflokks. Því miður er það þannig í dag. Vonandi komumst við einhvern tíma svo langt að ná tökum á þessum vanda þannig að hann vaxi ekki stöðugt. Við þurfum að standa þannig að málum að kröfurnar um aukningu verði ekki eins miklar og þær hafa verið á undanförnum árum. Sannarlega hefur verið þörf á aukningu og langt umfram það sem hefur verið gert og þó að færa megi rök fyrir því að búið sé að setja 430--450 millj. til forvarnastarfsemi í tollinn, lögregluna og fleiri þætti mætti sjálfsagt gera miklu betur og enn erum við jafnvel ekki að uppfylla lagaskilyrði sem eru til staðar um það hvernig við eigum að sinna heilbrigðisþjónustu okkar. Vera má að það hefði þurft að nota milljarðinn bara til þess að uppfylla öll þau lagaskilyrði sem eru til staðar.

Þetta snýst um forgangsröðun, það er rétt. Forgangsröðunin hefur verið sú að efla forvarnirnar og byggja upp meðferðarheimili sem kröfur hafa verið um. Hefur nokkrum hér inni dottið í hug að þó að byggður væri barnaspítali, þó svo það væri aukin upplýsingagjöf til foreldra veikra barna, þó keypt væru inn ný tæki til að fást við alvarlega, líkamlega eða andlega sjúkdóma sem börn þjást af, hefur þá einhverjum hér inni dottið í hug að það þýddi að ekki þyrfti að greiða umönnunarlaun til þeirra foreldra sem hlut eiga að máli? Nei, líklega ekki. Hér er ekki um mjög stórar fjárhæðir að ræða. Sú hugsun sem kemur fram í umsögn Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar er kannski dæmigerð fyrir það hvernig þeir sem líta þannig á að þetta sé ekki forgangsverkefni. Hæstv. ráðherra er ekki ein um að álíta það ekki forgangsverkefni að greiða umönnunarlaun til foreldra ungra fíkniefnaneytenda, mjög veikra barna sem foreldrar þurfa að sinna allan sólarhringinn. Í umsögn félagsmálastjóra Reykjavíkurborgar segir, með leyfi forseta:

,,Erfitt yrði að meta hvenær barn/unglingur yrði þannig staddur að foreldri eigi rétt á greiðslum. Hlutverk foreldris í meðferð er enn fremur óljóst og ekki geta allir foreldrar verið þátttakendur. Því geta m.a. valdið meðvirkni aðstandenda sem er stundum greind sem sjúkleg einkenni fjölskyldna vímuefnaneytenda. Álag foreldra við þessar erfiðu aðstæður er margfalt m.a. vegna óvissu og oft úrræðaleysis.``

Þetta eru rök fyrir að greiða þeim ekki umönnunarbætur, að þetta séu ekki forgangsmál. Hvenær er foreldri ekki meðvirkt þegar barn er fársjúkt hvort sem það er krabbameinsveikt, veikt í hjarta eða þjáist af öðrum erfiðum líkamlegum eða andlegum sjúkdómum? Hvenær er foreldri ekki meðvirkt? Hvernig kemst foreldri hjá því að verða meðvirkt? Foreldrar sem ekki fá greidd umönnunarlaun hafa miklu minni möguleika til að takast á við þann mikla vanda sem fylgir því þegar barn verður fjársjúkt vegna vímuefnaneyslu en foreldrar langveikra barna eða fatlaðra. Samt erum við ekki að gera of vel við þá foreldra og við vildum sjálfsagt gera miklu betur og ég veit að hæstv. ráðherra tekur undir það að við vildum gera miklu betur. Hér er ekki um að ræða stórar fjárhæðir. Þetta þýðir að það verði að endurskoða reglurnar sem gilda um umönnunarlaunin og að taka inn foreldra þessara veiku barna. Það er viðurkennt af öllum sérfræðingum að við erum ekki að tala um tímabundin veikindi. Það er ekki þannig að barn ánetjist eiturlyfjum og það sé afgreitt á einhverjum örfáum dögum eða vikum. Nei, það þarf langvarandi meðferð og ekki bara þetta barn heldur þurfa önnur börn í fjölskyldunni einnig á umönnun að halda. Í raun og veru má segja að systkini ungs fíkniefnaneytenda veikist líka þó þau neyti ekki fíkniefna. Það er þvílíkt álag á þessum fjölskyldum eins og hjá þeim sem eiga börn sem eiga við alvarleg langvarandi veikindi að stríða.

Þess vegna er það þannig að mig undrar það stundum þegar við tökum fyrir umræðu um fíkniefnavandann, um möguleikana til þess að bæta úr, um það að okkur vanti meðferðarstofnanir og að börn eru á biðlistum lengri eða skemmri tíma. Við höfum gert átök í þessu eins og ýmsu öðru og rætt það í skorpum, utandagskrárumræðum og þá er salurinn fullur. Fulltrúar allra flokka koma og lýsa því yfir hver er stefna þeirra og hvað þeir vilji gera. Svo þegar komið er að því að leysa hluti sem kosta ekki stórar fjárhæðir þá þegja menn þunnu hljóði og taka ekki þátt.

Ég veit að hæstv. ráðherra hefur úr takmörkuðum fjármunum að spila og ég veit að hæstv. ráðherra hefur reynt að spila afar vel úr því fé sem lýtur að þessum málaflokki. Það er ekki þannig að það sé við einn hæstv. ráðherra að sakast að ekki eru til fjármunir. Það er þannig að þetta eru skipti og rammi þessa ráðuneytis þykir líklega dálítið víður og víðari en margra annarra ráðuneyta. Þess vegna skiptir það máli að þeir hv. þm. sem sitja í stærri stjórnarflokknum séu líka tilbúnir til þess að leggja þessu lið og leggja hæstv. ráðherra lið. Það er mjög erfitt með takmarkaða fjármuni og stórt og mikið vandamál að forgangsraða. Ég tel að það hafi verið tekið á því af bestu vitund að spila úr þeim fjármunum sem heilbrrn. hefur haft. En það þarf meira og það þarf þá samstöðu allra og þess vegna eru orð mín ekki mælt þannig að um ásökun sé að ræða á hæstv. ráðherra af því að mér er vel kunnugt um það hvernig hún hefur farið með þá fjármuni sem úr er að spila. Það er í raun og veru frekar þannig að maður áfellist þá sem eiga að standa að þessum málaflokki en vísa á ábyrgð eins ráðherra.

Það væri ábyggilega mjög fróðlegt fyrir þá hv. þm. sem ekki hafa heimsótt Foreldrahúsið úti í Vonarstræti, þar sem foreldrar fíkniefnaneytenda eru, að mæta þar á fræðslufund og hitta þessa foreldra og sjá hvernig sjúkdómur barnsins tekur allan tíma foreldranna.

Ég gleymdi því áðan, virðulegi forseti, að óska eftir að frv. verði vísað til heilbr.- og trn., og því hlýt ég að bera fram þá einlægu ósk að heilbr.- og trn. taki þetta fyrir af sanngirni, kynni sér málið og ræði við foreldrana, fari og ræði við foreldrana. Þetta er mjög alvarlegt og erfitt mál fyrir þessa foreldra. Þeir standa næst vandamálinu, þurfa á aðstoð okkar að halda og ekki hvað síst einstæðir foreldrar sem missa greiðslur sem þeir fá með börnum sínum um leið og þau fara inn á meðferðarstofnun og eiga þó að taka þátt í meðferðinni því að það viðurkenna allir að það er nauðsynlegt að foreldrar taki þátt í meðferðarstarfi. Þessi sjúkdómur er alvarlegur. Hann er því miður að verða allt of algengur og hæstv. heilbrrh. þarf áreiðanlega á stuðningi þingsins að halda til þess að fá fjármagn ef þetta frv. yrði samþykkt sem ég vona sannarlega.