Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 12:46:20 (5122)

2000-03-09 12:46:20# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, DrH
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[12:46]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða nr. 27/1995. Það er mjög mikilvægt að halda áfram því mikla starfi sem unnið hefur verið að á undanförnum árum. Að óbreyttum lögum lýkur starfi Áforms -- átaksverkefnis um næstu áramót. Lagt er til að framlög til átaksverkefnisins á fjárlögum verði framlengd og fé verði veitt til verkefnisins á fjárlögum árið 2001--2003 og er kostnaður í heild 75 millj. kr.

Í fskj. I eru tilgreind þau verkefni sem Áform -- átaksverkefni hefur hvatt til og styrkt árin 1995--1999. Þar eru talin upp 50 verkefni sem eru afar áhugaverð og metnaðarfull. Það er mjög mikilvægt að þetta átak fái lengri tíma og því fagna ég þessu frv. Ég tel það afar mikilvægt eins og fram kemur í grg. með frv. að treysta lagalega umgjörð lífrænnar framleiðslu og samræma hana alþjóðlegum stöðlum. Mestu sóknarfæri okkar í landbúnaði eru að bjóða fram hreina og góða vöru sem er besta vörn bænda gagnvart innfluttum vörum og það er sóknarfæri nú að afla markaða fyrir vottaða hágæðavöru erlendis.

Megineinkenni lífrænnar ræktunar í matjurtarækt er að jarðvegur sé frjósamur og lifandi, notuð séu lífræn áburðarefni, skiptiræktun mismunandi tegunda og náttúrulegar varnir gegn illgresi og skordýrum, friðun og uppgræðsla viðkvæmra gróðursvæða, varnir gegn mengun frá annarri ræktun og erfðabreytt lífefni eru bönnuð. Í búfjárrækt þurfa hús að vera rúmgóð og þurr, lífrænt fóðurefni, beitarálagi stýrt, næg útivist, hreyfing og góð meðferð sem fyrirbyggi sjúkdóma og varðveisla náttúrulegra stofna, allt búfé skal vera merkt og erfðabreytingar og hormónar eru bannaðir.

Í flestum nágrannalöndum okkar hafa neytendur átt þess kost um nokkurra ára skeið að kaupa mikið úrval matvæla, snyrtivöru, þvottaefna, vefnaðarvöru, áburðarefna, fræs, útsæðis og dýrafóðurs sem framleidd eru með lífrænum aðferðum eða sem eru úr hreinum náttúruafurðum. Eftirspurn slíkra afurða fer jafnt og þétt vaxandi og lífræn ræktun er nú orðin drjúgur hluti landbúnaðar í mörgum Evrópuríkjum.

Lífrænn landbúnaður er nú stundaður á um 130 þúsund býlum í löndum ESB og um 2% alls akurlendis er í lífrænni ræktun. Í nýrri landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins er mikil áhersla lögð á stuðning við lífræna framleiðslu og er því spáð að árið 2010 verði lífræn framleiðsla stunduð á 1,8 millj. búa og að 45 millj. hektarar akurlendis verði í lífrænni ræktun.

Það er ljóst að eftirspurn eftir hreinum vörum fer vaxandi og fólki er ekki sama hvað það lætur ofan í sig eða hvaða efnum er blandað í snyrtivörur, húðkrem og sápu t.d. Og eins og ráðherra sagði í ágætu ávarpi sínu á búnaðarþingi ætlar hann að hafa eftirlit frá haga í maga, og er það vel.

Við Íslendingar erum hins vegar langt á eftir öðrum í lífrænni framleiðslu. Þau viðhorf hafa verið ríkjandi að hér sé allt í svo góðu lagi að framleiðslan sé nánast lífræn eins og hún kemur fyrir. Því er nauðsynlegt að efla alla fræðslu og þekkingu á lífrænum aðferðum og þeim möguleikum sem við eigum á því sviði.

Í skýrslu sem við fengum í hólfið okkar í morgun frá Áformi -- átaksverkefni frá 1999 segir í kafla II um mat á árangri:

,,Viðhorfsbreyting. Árangur af starfi verkefnisins lýsir sér fyrst og fremst í þeirri róttæku breytingu sem orðið hefur á sl. fimm árum á viðhorfum manna til gæðastýringar í landbúnaði og skilningi og þekkingu á þeim kröfum sem gerðar eru til vara á hágæðamörkuðum og hvernig unnt er að mæta þeim kröfum. Árangur verkefnisins verður hins vegar ekki að svo komnu mældur í tölulegum upplýsingum um atvinnusköpun, magn seldra afurða og verðmæti. Á hinn bóginn hefur verkefnið komið því til leiðar að nú eru fyrir hendi forsendur til að hefja sókn í framleiðslu og markaðssetningu vistvænna afurða og lífrænna afurða.``

Viðhorfsbreyting sú sem hér um ræðir birtist m.a. í nokkrum atriðum og ætla ég að tæpa aðeins á örfáum þeirra:

,,Starfshópur á vegum landbrh. lagði til í júní 1998 að stefnt skyldi að því að allar íslenskar búvörur fái vistvæna eða lífræna vottun. Í ályktun aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda 1998 er hvatt til þess að sem flestir sauðfjárbændur og sláturleyfishafar verði sér út um vistvæna vottun á framleiðslu sína sem allra fyrst og að þeir bændur sem aðstöðu hafi til hefji lífræna framleiðslu.

Alþingi samþykkti í mars 1999 ályktun um að stefna beri að því að öll hefðbundin matvælaframleiðsla á Íslandi verði vottuð á forsendum sjálfbærrar þróunar. Jafnframt skuli stefnt að því að auka hlut lífrænt framleiddra landbúnaðarafurða.

Í samningi milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands samkvæmt búnaðarlögum, nr. 70/1998, sem undirritaður var í mars 1999, er í fyrsta sinn gert ráð fyrir framlögum vegna aðlögunar að lífrænni og vistvænni framleiðslu.

Búnaðarþing 1999 fól stjórn Bændasamtaka Íslands að beita sér fyrir því að gerð verði framkvæmdaáætlun með markvissri stefnumótun við stuðning við lífrænan búskap og aðlögun að honum.``

Hér standa því allir saman, bæði stjórnvöld og bændur, sem er mjög mikilvægt. Og eitt af stærstu verkefnum ráðunautafundar í febrúar sl. var gæðastýring í landbúnaði.

Það er ekki síst, herra forseti, mikilvægt að neytendur fái vitneskju um þá kosti sem gera lífrænar vörur eftirsóknarverðar. Erlendar kannanir sýna að þeir sem velja lífrænar vörur gera það oft vegna þess að þeir telja þær öruggari en önnur matvæli, það sé minni hætta á að þær hafi að geyma hættuleg efni og bakteríur. Áhugi neytenda á lífrænni framleiðslu á matvælum er ekki síst til kominn vegna þess eða áfalla sem hafa orðið í landbúnaði t.d. í Evrópu. Og sú harða krafa á að framleiða matvöru með sem lægstum tilkostnaði hefur víða um heim orðið til þess að menn hafa gripið til þeirra ráða að hámarka afraksturinn með gífurlegri vélvæðingu, eiturefna- og lyfjanotkun, ofnýtingu lands og búfjár og nú síðustu ár breyttri erfðatækni.

Við heyrum fréttir af ótrúlegum aðferðum til að auka hagkvæmni í framleiðslunni, meira að segja að skolp hafi verið notað í fóður í Frakklandi, dýraleifar notaðar í fóðurgerð og nú fyrir nokkrum dögum komu fregnir um að kúariða sé komin upp í Danmörku og það í innfæddri kú en ekki innfluttri. Hormónanotkun, fúkkalyfjum blandað í fóður sláturdýra, astmalyfum sem draga úr fitusöfnun en auka vöðvasöfnun er sprautað t.d. við augu til að það sjáist ekki. Þetta viljum við Íslendingar ekki og ekki íslenskir bændur. Íslenskir bændur framleiða góða og vandaða vöru sem er laus við öll þessi aukefni og þeim er það kappsmál að framleiða hollar og góðar vörur.

Herra forseti. Ég vil aðeins geta þess að heildarútgjöld hins opinbera til landbúnaðar hafa lækkað úr 15 milljörðum kr. árið 1989 í 7,8 milljarða kr. árið 1997 og hafa því heildarútgjöld lækkað um 50% á þessum árum og eru nú 5% af heildarútgjöldum ríkissjóðs.