Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 14:07:56 (5127)

2000-03-09 14:07:56# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[14:07]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla heldur ekki að karpa við hv. þm. Gísla S. Einarsson um atriði sem koma málinu ekkert við. En það væri gaman að heyra hv. þm. skýra örlítið nánar frá þeirri sýn sem hann hefur á lok verkefnisins, í lok ársins 2002.

Spurning mín í fyrri ræðu minni var: Hvers vegna liggur ekki fyrir eftir fimm ára starf metnaðarfull tillaga að stefnumörkun? Hvað sér hv. þm. fyrir sér í lok ársins 2002? Hvernig verða lok verkefnisins? Hver er framtíðarsýn stjórnarmanna verkefnisins varðandi verkefnið? Hvaða árangri ætla þeir að ná? Varla getur verkefnisstjórnin, herra forseti, séð það eitt fyrir sér að hún fái áframhaldandi fjárveitingar til Áforms -- átaksverkefnis næstu ár eða áratugi. Það hlýtur að verða einhver lokapunktur sem nefndarmenn eða stjórnarmenn sjá fyrir sér sem niðurstöðu starfsins, þess mikla starfs sem innt hefur verið af hendi. Ég sakna þess að hv. þm. skuli ekki nota tækifærið og segja okkur frá því hver lokaniðurstaðan yrði ef hans villtustu draumar varðandi verkefnið rættust.