Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 14:23:52 (5130)

2000-03-09 14:23:52# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[14:23]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins fá að gera grein fyrir því að við lagasetninguna 1995 er ákvæði 3. gr. laganna þannig:

Stjórn verkefnisins skal stuðla að verkefnum á sviði fræðslu um vistvæna og lífræna framleiðslu, gæðastjórnunar, áætlanagerðar, vöruþróunar og markaðssetningar íslenskra afurða undir merkjum hollustu, hreinleika og gæða.

Þetta þýðir að nánast allar afurðir sem er verið að vinna við að markaðssetja á einhvern hátt undir þessum merkjum falla þar undir. Þar kemur einmitt þessi framleiðsla á lyfjum úr íslenskum jurtum. Ekki er hægt fyrir þetta verkefni að víkja sér undan stuðningi við þær rannsóknir sem þar eru vegna þess að það fellur mjög vel og einmitt beint undir þá skilgreiningu sem ég var að lesa upp.

Herra forseti. Ég vildi aðeins gera grein fyrir þessu vegna þess að flutningsmenn frv. voru formenn allra þáverandi þingflokka, þeir hv. alþm. og fyrrv. alþm. Geir H. Haarde, Finnur Ingólfsson, Sigbjörn Gunnarsson, Ragnar Arnalds og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir sem voru frumflytjendur þessa máls. Þar var þetta alveg skýrt og greinilegt að undan því verður ekki vikist að styðja allt það sem var upp rakið.