Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 14:28:29 (5133)

2000-03-09 14:28:29# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[14:28]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Það mál sem er til umfjöllunar, frv. til laga um breytingu á lögum um átaksverkefni, framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða, nr. 27/1995, er að mínu mati allra góðra gjalda vert. Hér er verið að framlengja möguleika til styrkveitinga alveg fram á árið 2003 um 25 millj. kr.

Ég vil hafa nokkur orð um frv. og taka undir með hv. 17. þm. Reykv., Kolbrúnu Halldórsdóttur, að ég sakna þess að menn skuli ekki hafa á þessum tímapunkti, við framlenginguna, sett sig niður og markað nýja stefnu út frá þeirri reynslu sem fengist hefur. Það er fullyrt að til hinna raunhæfu verkefna síðustu árin hafi kannski ekki farið nema 33--35% af framlögunum. Hitt mætti segja að væri á mörkum þess sem gæti talist til verkefnanna og hér hefur verið nefnt eitt verkefni sem var átaksverkefni Græna hersins. Ég tel að það verkefni hafi verið alveg verið á mörkunum enda var það stutt af öðrum aðilum. Það var stutt af sveitarfélögunum og það var stutt af fyrirtækjum og einstaklingum.

[14:30]

Ég held að það sem upp úr stendur þegar við fjöllum um þetta sé að við verðum að gera kláran greinarmun á lífrænu og vistvænu. Við verðum að fara í meiri fræðslu og umfjöllun um þessi mál út frá þeim nótum. Eins og fram hefur komið þá eru engar viðurkenndar vottanir til um það sem við köllum vistvænt. Menn hafa sett sér staðla í ýmsum löndum en heildstæð vottun er ekki til nema um það sem við köllum lífrænt. Það hefur margkomið fram hér, t.d. hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, að fyrir lífrænt vottaðar afurðir er nægur markaður. Það kom fram hér í ræðustól að allt lífrænt vottað lambakjöt hefur selst. Það er mikil eftirspurn eftir því og markaðurinn er fyrir hendi.

Margir halda að lífrænt framleitt og vistvænt framleitt sé það sama. Svo er aldeilis ekki. Við verðum að hafa það í huga og vera gagnrýnin á það. Mér er fullkunnugt um að mjög margir eru að dekra við hugmyndina að það verði látið nægja að fara í vistvæna vottun vegna þess að á norðlægum slóðum sé t.d. mjög erfitt að ná inn heyfeng fyrir sauðfé ef við ætlum að fara yfir í algjöra lífræna ræktun. Mjög margir bændur telja að það sé nánast illmögulegt. Hér hafa komið fram tillögur um að gera mönnum kleift að fara út í lífræna ræktun með því að styrkja þá beint og myndarlega eins og tíðkast í nálægum löndum. Þess vegna er það gleðiefni að fram er komin till. til þál. um aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað. Flm. eru hv. þm. Þuríður Backman, Jón Bjarnason og Kolbrún Halldórsdóttir. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir aðgerðum til að veita bændum sérstakan aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað sambærilegan þeim sem veittur er annars staðar á Norðurlöndum.``

Ég held að við verðum að vera svolítið framsækin hér í þinginu þó að við gerum okkur fyllilega grein fyrir þeim erfiðleikum sem bundnir eru við að fara yfir í fullkomlega lífræna framleiðslu. Við gerum okkur grein fyrir því. Menn fara ekki yfir í þessa framleiðslu og breyta ekki búum sínum nema með ærnum tilkostnaði. Í raun þarf hver einasti framleiðandi sem hugsar sér að fara inn í slíkt ferli á endurmenntun að halda. Það er mjög mikilvægt.

Ég fagna því sérstaklega að úthlutunarnefndin, sem raðað hefur upp og sett niður verkefni, hefur á lista sínum rannsóknir á íslenskum lækningajurtum. Þar á meðal eru kynbætur á Alaskalúpínu sem beitarjurt og e.t.v. lækningajurt. Ég held að sá möguleiki sem við höfum í þessu stóra landi sé gríðarlegur hvað varðar lækningajurtir, söfnun á þeim og sölu. Ég hef upplýsingar um að meira að segja nú þegar hafi nokkrir aðilar af því ágætis aukatekjur að safna íslenskum jurtum og hreinsa til að nota sem krydd og til lækninga. Þarna er algjörlega óplægður akur og menn mega ekki gera lítið úr þeim möguleikum sem þarna eru fyrir hendi. Ég veit ekki betur en að t.d. í Norður-Noregi sé langstærsti framleiðandinn á fjallagrösum en þau eru uppistaðan í gerð fjölmargra lyfja. Þarna eru gríðarlegir peningar í húfi ef menn notfæra sér þessar náttúruauðlindir í þeim dúr sem þeir sem hafa heilbrigða sýn á nýtingu náttúrunnar tileinka sér.

Ég tel mjög mikilvægt að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru verði að mjög miklu leyti notaðir í að endurmennta þá bændur sem vilja fara í nýtingu á landinu á lífrænan hátt. Það er mjög mikilvægt að menn fái fræðslu. Ég held að enginn fari út í að skipta yfir í lífrænan búskap öðruvísi en að fara annaðhvort í bændaskóla eða garðyrkjuskóla með það að leiðarljósi.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt mikið meira. Ég tel að hér sé mjög mikilvægt mál á ferðinni. Það ber að þakka hæstv. landbrh. fyrir að hafa beitt sér fyrir því að áframhald verði á stuðningi af þessu tagi upp á 25 millj. kr. til ársins 2003. Í raun tel ég svo gríðarlega möguleika í þessum geira öllum og kannski eigum við ekki að binda þetta endilega við landbúnaðinn. Vistvæn eða lífræn vottun gagnvart fiskveiðum er líka inni í myndinni og allt sem heitir sjávarfang. Í raun er sama í hvaða grein við berum niður, þessi hugsun með að nýta auðlindir landsins í sátt við náttúruna á lífrænan hátt til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir er það sem við eigum að hafa að leiðarljósi hvað svo sem menn aðhafast.

Að svo mæltu vil ég segja að ég styð þetta frv. efnislega og hefði í sjálfu sér getað lýst stuðningi við að gera enn betur í framþróun af þessu tagi, sem okkur er svo nauðsynleg.