Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 14:54:20 (5136)

2000-03-09 14:54:20# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[14:54]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Það kann vel að vera að ég hafi tekið of djúpt í árinni þegar ég sagði að þetta væri lífsnauðsynlegt. En ég tek það fram að mér finnst sjálfsagt mál að halda áfram því góða starfi sem Áform hefur verið að gera. Þar var um brautryðjendastarf að ræða og ég er ekki sammála því að við séum fallin á tíma. Allt í einu vill hv. þm. láta hlutina gerast með þessum ógnarhraða. Gjarnan hefur hún í 2. umr. um önnur mál viljað láta hlutina ganga jafnvel með hraða snigilsins en ég kenni Áformi ekkert um þessi hugtakabrengl, þau eru ekki átaksverkefninu að kenna. Þetta er eitthvað sem við þurfum að kenna hinum almenna borgara þegar hinn almenni borgari er að ræða um þessi mál og það þarf hreinlega að koma þessum upplýsingum á framfæri.

Það kom t.d. fram í umræðunni áðan að einn hv. þm. var alveg hissa á því að vottunarstofa hafði fengið styrk úr átaksverkefninu. Það eru vottunarstofurnar sem votta að varan sé hin rétta framleidda vara. Við sjáum bara í þingsalnum að menn ganga ekki alveg í takt þarna en ég segi með öðrum orðum, svo að ég reyni að skilgreina orð hv. þm. eins og hv. þm. var að reyna skilgreina ræðu mína hér áfram, vill þá hv. þm. sem sagt bara hætta þessu? Erum við fallnir á tíma og eigum við að gefast upp við verkefnið?