Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 15:05:46 (5144)

2000-03-09 15:05:46# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[15:05]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði sem ég vil undirstrika. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi átaksverkefninu til 25 millj. á fjárlögum árin 2000--2002. Ég fór að velta því fyrir mér hvert væri hlutverk fjárlaga og fjáraukalaga og hvað þetta frv. í rauninni væri. Ég spyr hæstv. forseta: Eru þetta í rauninni ekki fjáraukalög eða eru þetta fjárlög? Verið er að ákvarða útgjöld fyrir næstu fjárlög sem við eigum að samþykkja fyrir næstu áramót á hv. Alþingi. Getur hv. Alþingi tekið svona fram fyrir hendurnar á sjálfu sér varðandi afgreiðslu á fjárlögum? Þetta er spurning sem vaknar í huga mér því að verið er að skuldbinda ríkissjóð til þriggja ára á fjárlögum þrátt fyrir að við samþykkjum eingöngu fjárlög til eins árs. Reyndar hefur verið rætt um að hafa fjárlögin til lengri tíma og ég er hlynntur því en það þarf þá að hafa verið tekin um það ákvörðun. Hér er sem sagt verið að skuldbinda ríkissjóð til þriggja ára.

Herra forseti. Fyrst ég er kominn að ræða þetta frv. þá erum við aftur að ræða bisness svo ég noti það orð. Þessi lög heita átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu. Það er framleiðslu- og markaðsdeildin sem við erum að ræða um í Íslandi hf. og hér er verið að hjálpa bændum við að framleiða lífrænar afurðir af því að þeir geta það ekki sjálfir. Þeir hafa ekki frumkvæði eða döngun í sér til að gera það sjálfir, þ.e. hv. þm. virðast ekki treysta þeim til þess. Auðvitað gætu þeir það ef þeir þyrftu. Það hefur nefnilega komið í ljós að lífrænar afurðir seljast mjög vel og þess vegna ættu allir bændur að stuðla sjálfir að því að framleiða vörur lífrænt. Ef það kostar eitthvað í vottun eða öðru slíku eiga þeir að standa undir kostnaðinum sjálfir vegna þess að þetta selst vel skilst mér. Ég sé ekki hvað ríkissjóður er að gera í þessu.

Til þess að ræða rétt aðeins um markaðsdeildina, herra forseti, vil ég gjarnan lesa upp úr grg. með frv., með leyfi hæstv. forseta:

,,Þrátt fyrir það sem áunnist hefur er mikið verk fram undan við að fylgja þeim árangri eftir sem þegar hefur náðst.`` --- Þetta er markaðsdeildin sem talar. --- ,,Þar sem magn innlendra lífrænna og vistvænna afurða er enn mjög takmarkað hefur til þessa ekki verið hægt að greina viðbrögð markaðarins nægilega vel, enda þótt erlend markaðsreynsla gefi mikilvægar vísbendingar.``

Hér er markaðsdeildin að fara fram á það við framkvæmdastjórnina að hún veiti leyfi til þess að halda þessu starfi áfram í markaðsdeildinni.

Rétt aðeins til að undirstrika hvað ríkið stendur mikið í bisness ætla ég að nefna þau verkefni sem ríkið hefur verið að stunda undanfarið. Ríkið hefur tekið þátt í því skv. fskj. I að framleiða lífræna AB-mjólk. Það er ríkissjóður og íslenska ríkið sem stendur í þeirri framleiðslu. Það hefur líka staðið að framleiðslu á hráefni í lífrænan barnamat. Nú er ég kominn yfir í vöruþróunardeildina, herra forseti, og það eru rannsóknir á íslensku byggi til fóðurs fyrir mjólkurkýr. Það er aftur vöruþróunardeildin sem er að vinna með markaðsdeildinni. Svo ég grípi hér niður líka, þá er verið að mynda viðskiptasambönd við kjötkaupmenn í Danmörku og Belgíu og stuðning við markaðsstarf þar. Nú er það markaðsdeildin sem er að segja frá útflutningsdeildinni í fyrirtækinu okkar.

Að síðustu ætla ég að nefna að það er verið að kanna möguleika á sölu lambakjöts í verslanir á austurstönd Bandaríkjanna. Við erum líka með markaðsstarf þar, þ.e. ríkið stendur í þessum bisness líka.

Herra forseti. Er ekki rétt að við förum að átta okkur á því hvert er hlutverk ríkisvaldsins? Hvort ríkisvaldið eigi að standa í framleiðslu, markaðssetningu og það sem við venjulega köllum bisness? Er ekki rétt að ríkið takmarki sig pínulítið við það sem er almennt talið vera hlutvek ríkisins?