Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 15:10:25 (5145)

2000-03-09 15:10:25# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[15:10]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Aðeins út af einu litlu atriði í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Fyrst væri kannski rétt að segja að ef við færum að ráðleggingum hv. þm. væri alveg sjálfhætt í íslenskum landbúnaði en varðandi það sem hann sagði um vottunina og kostnaðinn við vottunina þá er rétt að það komi fram að þeir bændur sem eru í lífrænni framleiðslu þurfa sjálfir að greiða vottun sinnar framleiðslu í dag. Það þurfa hins vegar þeir bændur ekki að gera sem framleiða vistvænt vottaðar vörur því þar hefur ríkisstjórnin tekið ákvörðun um að ríkissjóður komi inn með stuðning við þá sem eru í vistvænu framleiðslunni. Það er ekki sambærilegur stuðningur og til þeirra sem eru að rækta lífrænt. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég hef verið að gagnrýna að menn skuli gera þeim vistvænu hærra undir höfði en hinum lífrænu. Þeir sem rækta lífrænt eru þó að vinna eftir alþjóðlegum eða fjölþjóðlegum stöðlum en hinir vistvænu einungis samkvæmt innlendum stöðlum og vara þeirra sem framleiða vistvænt fer í sömu hillur í útlöndum og hinna sem eru að framleiða þar með hormónagjöfum og guð veit hverju.