Veitinga- og gististaðir

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 15:37:42 (5149)

2000-03-09 15:37:42# 125. lþ. 76.5 fundur 406. mál: #A veitinga- og gististaðir# (nektardansstaðir o.fl.) frv. 66/2000, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[15:37]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985.

Frv. þetta var samið í samgrn. í kjölfar starfs viðræðunefndar sem sett var á fót vorið 1999 sem hafði það hlutverk að sporna gegn starfsemi svonefndra erótískra veitingastaða. Nefnd þessi var skipuð fulltrúa Reykjavíkurborgar, dómsmálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og samgönguráðuneytis. Niðurstaða nefndarinnar var meðal annars sú að nauðsynlegt væri að breyta lögum um veitinga- og gististaði á þann veg að flokkum veitingastaða yrði fjölgað. Telur nefndin að með því móti væri sveitarstjórnum veitt úrræði til að geta haft áhrif á hvar slík starfsemi færi fram. Nefndin telur að í núgildandi lagaumhverfi skorti slík úrræði en með flokkun veitingastaða gætu sveitarfélög á grundvelli b-liðar 3. gr. laga nr. 36/1988, um lögreglusamþykktir, kveðið á um opnunar- og lokunartíma nektardansstaða. Jafnframt telur nefndin að sveitarfélög gætu kveðið á um það í skilmálum aðal- eða deiliskipulags hvar heimilt sé að reka slíka staði og á grundvelli sömu heimildar sett einhver nánari skilyrði um það skemmtanahald sem fram fer á nektardansstöðum, umfram þau skilyrði sem gilda um skemmtanahald á öðrum veitingastöðum.

Frá því að lög um veitinga- og gististaði voru sett árið 1985 hefur orðið gjörbreyting á skemmtanavenjum landsmanna. Flokkun veitingastaða í löggjöfinni tekur mið af fyrri aðstæðum og er t.d. hvorki gert ráð fyrir krám né kaffihúsum í lögunum en ljóst er að slíkum stöðum hefur stórfjölgað hér. Þá er heldur ekki gert ráð fyrir flokki næturklúbba eða staða sem nú kallaðir eru nektardansstaðir en slíkir staðir eru nú allnokkrir.

Í lagafrv. þessu er lagt til að flokkum veitingastaða verði fjölgað um þrjá, þ.e. að bætt verði við krám, kaffihúsum og næturklúbbum. Með næturklúbbi er átt við stað þar sem skemmtun hefst seint að kvöldi. Nektardansstaðir eru dæmi um næturklúbba samkvæmt skilgreiningu greinarinnar.

Við gerð þessa frv. voru tvær leiðir skoðaðar, annars vegar að flytja útgáfu leyfanna til sveitarfélaganna og færa þar með tekjurnar af leyfisveitingunum til þeirra og hins vegar sú leið sem fram kemur í frv. og þegar hefur verið lýst.

Að höfðu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga var ljóst að ekki var að svo komnu máli áhugi fyrir því að sveitarfélögin tækju málaflokkinn að sér. Það hafði verið vilji minn að leyfisveitingar vegna veitingastaða færðust frá lögreglustjóraembættunum til sveitarfélaganna en fyrir þessu var hins vegar ekki vilji hjá sveitarfélögunum eins og hér hefur komið fram.

Starfsemi nektarstaða getur haft mjög mikil áhrif á ásýnd einstakra hverfa og heilla sveitarfélaga auk þess sem almenn siðferðissjónarmið geta valdið því að sveitarstjórnaryfirvöld telji slíka starfsemi óæskilega. Fram hefur komið að þeir fulltrúar Reykjavíkurborgar sem haft var samráð við vegna samningar frv. telja að með frv. þessu séu sveitarstjórnum veitt úrræði til að geta haft áhrif á hvar slík starfsemi fari fram.

Gert er ráð fyrir að synja megi um leyfisútgáfu ef viðkomandi hefur verið dæmdur til refsivistar vegna brota á lögum er varða atvinnustarfsemi þessa. Hér er um að ræða mjög svipað ákvæði og er að finna í áfengislögum. Atvinnustarfsemi þessi getur verið mjög umfangsmikil og hætta á að sömu aðilarnir setji hvern veitingastaðinn á fætur öðrum á fót án þess að hafa burði til að standa undir rekstrinum. Rétt þykir að strax í upphafi séu úrræði til að koma í veg fyrir starfsemi þeirra aðila sem greinilega eru varla til þess hæfir að standa í rekstri af þessu tagi.

Rekstur veitingastaða er mikilvægur hluti af ferðaþjónustu og þjónustu við almenning í landinu og er sú starfsemi að jafnaði til fyrirmyndar. Starfsemi svokallaðra nektarstaða hefur þróast þannig að ekki er talið viðunandi að mati stjórnenda sveitarfélaga og þó einkum Reykjavíkurborgar. Með þessu frv. er ekki verið að leggja til að banna slíka starfsemi heldur sköpuð skilyrði til þess að hægt sé að ráða staðsetningu og setja strangar reglur um útgáfu leyfa til starfseminnar.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.