Veitinga- og gististaðir

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 15:53:16 (5152)

2000-03-09 15:53:16# 125. lþ. 76.5 fundur 406. mál: #A veitinga- og gististaðir# (nektardansstaðir o.fl.) frv. 66/2000, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þær viðtökur sem frv. fær hér á Alþingi. Ég vænti þess að um það megi takast gott samkomulag, að það verði afgreitt sem allra fyrst og verði að lögum.

Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. um að sú þróun sem hefur orðið hér í skemmtanastarfseminni er fjarri því að vera æskileg. Auðvitað hefði þurft að hafa tæki til þess að taka á þessu og draga úr þeirri þróun sem orðið hefur hér í höfuðborginni í andstöðu við vilja stjórnenda borgarinnar. Ég lít svo á að það eigi auðvitað að vera á valdi stjórnenda sveitarfélaga hvernig atvinnustarfsemin skiptist á hin ýmsu hverfi sveitarfélaganna eða borgarinnar. Svo virðist sem hér í miðborg Reykjavíkur hafi borgaryfirvöld misst tökin á þessari þróun með óæskilegum afleiðingum.

Hér kom fram að frv. hefði þurft að koma fyrr til afgreiðslu í þinginu og ég get alveg tekið undir það. En ástæður þess voru, eins og ég kom lítillega að í framsöguræðu minni, að ég hafði vonast til að þegar nefndin sem vann að undirbúningi þessa máls hefði lokið störfum og sett fram sínar tillögur næðist að gera þá breytingu að sveitarfélögin fengju þetta verkefni til úrlausnar og það yrði algjörlega á valdi sveitarstjórna að úthluta leyfum til veitingastarfsemi. Það urðu mér því vonbrigði þegar sveitarfélögin og þá sérstaklega borgin voru ekki tilbúin til að taka þetta að sér. Ég tók tillit til þess og reyndi að gera þær breytingar sem hér líta dagsins ljós og engu að síður er ástæða til að ætla að muni duga.

Ljóst er að frv. á að auðvelda það að hemja ákveðna starfsemi, ef svo mætti segja. Því er a.m.k. ætlað að koma henni í þann farveg hér í borginni að hún verði okkur ekki til minnkunar. Að mínu mati er afskaplega lítill menningarauki að þeirri starfsemi sem tengist næturklúbbum og nektardansstöðum. Ég hefði satt að segja fremur viljað eyða tíma mínum í eitthvað annað en að þurfa að standa fyrir sérstökum aðgerðum og samningu frv. til að koma mætti í veg fyrir að þjóðin yrði sér til skammar. En svona er þetta nú. Í mínum huga er aðalatriðið að sveitarfélögin geti beitt þeim ráðum sem þarf til þess að standa megi eðlilega að þessu. Ég vona svo sannarlega að með afgreiðslu þessa frv. megi svo verða.