Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 16:08:17 (5154)

2000-03-09 16:08:17# 125. lþ. 76.6 fundur 287. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# (fyrirsvar eignarhluta ríkisins) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[16:08]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Segja má að það sé í eðlilegu framhaldi af umræðum sem hv. þm. Samfylkingarinnar stóðu fyrir í þinginu og snerust allar um að reyna að gera samgrh. tortryggilegan vegna þeirrar lagaskyldu sem samgrh. hefur, að fara með eignarhald Landssímans. Einhverra hluta vegna hefur farið minna fyrir því af hálfu viðkomandi þingmanna að vekja athygli á því sem snýr að ríkisbönkunum þó að frv. þess efnis muni liggja fyrir. Hvað það varðar hefur málflutningurinn verið með allt öðrum hætti. En hvað um það. Ég veigra mér ekki við því að taka þátt í umræðu um þetta.

Framsögumaður frv., hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, vitnar ótt og títt eins og hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa gert til Samkeppnisstofnunar, samkeppnisyfirvalda þessa lands. Talað er um að það að samgrh. fari með hlutabréf Landssímans geti torveldað samkeppni á þessum markaði. Lítum nú hins vegar aðeins á veruleikann í ljósi þessara ummæla, þessa rökstuðnings.

Samkeppni á sviði fjarskipta blómstrar. Þrátt fyrir Landssímann og kannski vegna Landssímans rís hér upp hvert fyrirtækið á fætur öðru, símafyrirtæki, fyrirtæki sem sérhæfa sig í þjónustu á internetinu o.s.frv. Árangur þessara fyrirtækja er býsna góður. Samkeppnin er ekki torvelduð samkvæmt því. Markaðshlutdeild þessara nýju fyrirtækja er sérstaklega á GSM-símamarkaði þar sem Tal er. Það er ævintýri líkast hve Tal hefur tekist að ná mikilli markaðshlutdeild. Önnur símafyrirtæki keppast um að vinna á þessum markaði og til þess var leikurinn auðvitað gerður. Í ljósi þessara staðreynda er fátt sem bendir til þess að meðferð samgrh. á hlutafé í Landssímanum hamli samkeppni. Enda er það svo að lögin gera ráð fyrir því að Póst- og fjarskiptastofnun fjalli um samkeppnisstöðuna, fjalli um deilur sem koma upp á þessum fjarskiptamarkaði, samskipti og samninga fyrirtækja á fjarskiptamarkaði. Það er því ekki samgrh. sem kemur þar að heldur Póst- og fjarskiptastofnun og ekkert bendir til annars en að þar hafi verið vel að verki staðið.

Á hitt ber og að líta að viðkomandi ráðherra, þ.e. samgrh., hefur þrátt fyrir að fara með hlutabréf í Landssíma Íslands staðið fyrir umfangsmiklum breytingum á löggjöfinni. Út á hvað gengur sú breyting? Jú, að tryggja og auka samkeppni og auka möguleika nýrra fyrirtækja á að keppa við Landssímann. Það er rauði þráðurinn í hinum nýju fjarskiptalögum. Með því að gera ráð fyrir samningum GSM-símafyrirtækjanna geta ný fyrirtæki sem fara inn á þennan markað átt möguleika á því að komast inn á kerfið með samningum við markaðsráðandi fyrirtæki o.s.frv. Ýmsar breytingar sem gerðar voru á fjarskiptalögunum auðvelda nýjum fyrirtækjum að ástunda samkeppni enda var það grundvöllurinn að nýju farskiptalöggjöfinni, að tryggja samkeppni í þágu neytenda.

Samgrh. hefur þannig, þrátt fyrir að fara með hlutabréfið í símanum, flutt frv. í þinginu sem orðið er að lögum og gengur út á að tryggja þessa stöðu annarra fjarskiptafyrirtækja.

Það var vitnað til þess að EES-rétturinn kynni að segja að þetta væri ekki ásættanlegt eða gott fyrirkomulag. Vitnað var til þess að í Noregi gæti það verið álitamál að hafa það fyrirkomulag sem hér hefur verið gagnrýnt. Það er nauðsynlegt að vekja athygli á því að áform eru uppi um að leysa þetta vandamál. Það svarar kannski spurningu hv. þm. um hvort verið sé að undirbúa eitthvað sem taki á tilmælum samkeppnisyfirvalda um að ríkisstjórnin kanni hvort gera eigi á þessu breytingar.

[16:15]

Það eru uppi áform um að selja Landssímann. Eins og fram kemur í stjórnarsáttmálanum er gert ráð fyrir að undirbúa þá sölu og að það leysi þetta mál. Ef til þess kemur að Landssíminn verði seldur er það ekki lengur á valdi ráðherra að fara með málefni hans heldur væntanlegra eigenda. Þetta horfir nú allt saman til bóta og vonandi sér fyrir endann á því ferli.

Niðurstaða mín er því sú að ekki sé sérstök ástæða til að gera þessar breytingar. Út af fyrir sig mundi það að ýmsu leyti einfalda verkefni samgrh. að þurfa ekki að fara með hlutaféð í símanum en það er á grundvelli gildandi laga og á meðan svo er mun ég að sjálfsögðu sem samgrh. fara með það eignarhald og reyna að sjá til þess að fyrirtækið vaxi fremur en hið gagnstæða í höndum þeirra stjórnenda sem fara með rekstur og eignarhald á þessu fyrirtæki.