Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 16:17:16 (5155)

2000-03-09 16:17:16# 125. lþ. 76.6 fundur 287. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# (fyrirsvar eignarhluta ríkisins) frv., GuðjS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[16:17]

Guðjón Sigurjónsson:

Herra forseti. Það frv. sem er til umfjöllunar og hefur verið lagt fram á Alþingi varðar að mínu viti grundvallarspurningu um eðlilega og sanngjarna yfirstjórn samkeppnismála og aðkomu stjórnvalda að slíkri yfirstjórn. Ég vil fyrst og fremst vekja athygli á tveimur meginröksemdum sem rétt er að taka út úr þessari umræðu, fyrir því að lögum verði breytt í samræmi við frv. eins og það hefur verið lagt fram.

Fara þarf eftir þeirri kröfu til nútímalegra og lýðræðislegra stjórnarhátta að í þessu tilviki sé skilið formlega á milli þess aðila sem hefur æðsta vald í fyrirtæki og þess sem setur öðrum fyrirtækjum í samkeppni við fyrirtæki stjórnandans leikreglur með opinberu valdi sínu. Sé slíkt ekki gert ótvírætt þá er það til þess fallið að vefengja trúverðugleika stjórnvaldsins og síst til þess fallið að stuðla að eðlilegum samkeppnisháttum.

Í öðru lagi vek ég jafnframt athygli á þeirri röksemd sem ég tel mikilvæga í umræðunni og fram kemur í grg. með frv. að fylgja beri meginreglu reglugerðar um Stjórnarráð Íslands um að fjmrn. fari með eignir ríkisins. Við verðum að líta til þess að til að víkja frá þessari meginreglu verða að liggja málefnaleg og hlutlæg sjónarmið. Hver þau sjónarmið eru hef ég ekki heyrt koma fram í umræðu um málið og tel þau svör ráðherra sem hafa komið fram ekki í sjálfu sér vera því marki brennd að vísa til þess að þær röksemdir séu hlutlægar eða málefnalegar, heldur hníga þvert á móti allar hlutlægar og málefnalegar röksemdir til þess að sú lagabreyting sem lögð er til með frv. þessu eigi að verða að lögum til þess einmitt að tryggja eðlilegan grundvöll undir samkeppni á þessu sviði sem öðrum í landinu.