Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 16:14:48 (5175)

2000-03-13 16:14:48# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[16:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvað gaf hv. þm. tilefni til að snúa algjörlega út úr orðum mínum, snúa þeim við í 180 gráður. Heyrði einhver mig segja að ég treysti sveitarfélögunum ekki til að vinna að þessum málaflokki eða þess vegna að framþróun eða faglegri stefnu? Það sem ég var að ræða var þörfin fyrir að samræmd og heildstæð stefnumótun gæti gengið í málaflokki af þessu tagi þegar hann væri orðinn viðfangsefni mörg hundruð sveitarfélaga. Ég tók það sérstaklega fram í þeim töluðum orðum að þetta væri ekki sagt vegna þess að ég vissi ekki að hjá sveitarfélögunum vítt og breitt um landið er heilmikill metnaður á þessu sviði. En ég held að það hljóti að liggja í augum uppi eins og menn viðurkenna með 50. gr. að það þarf að grípa til sérstakra úrræða til að ekki komi upp sú hætta að stefnan geti orðið dálítið út og suður ef ekki er slík samræming fyrir hendi.

Ég fagna ákvæði 50. gr. og það er alveg hárrétt sem giskað var á af hv. ræðumanni að ég er ekki jafn vel lesinn í þessu frv. og höfundar þess. Það er ákaflega þægilegt fyrir þingmenn, sem sátu í nefndinni sem sömdu frv., að koma upp og reka okkur hina á gat eða upplýsa okkur um það sem okkur hefur yfirsést. En við höfum ekki unnið að þessu í nætur og daga í marga mánuði eins og sumir aðrir.

Ég var ekki að tala um að setja endanlegan verðmiða á þessi samskipti fyrir fram áður en stefnumótunin og lögin væru í gildi. En sporin hræða í þessum efnum. Hitt hefur heldur ekki gefist vel að ganga frá lögunum og ganga frá yfirfærslunni og jafnvel tímasetja hana og setja svo það í nefnd að finna út reiknigrundvöllinn eins og gert var með grunnskólana þar sem tvær nefndir áttu að leysa það vandamál og þannig var málinu sóðað í gegnum þingið. Ég lít reyndar svo á að það sé viðurkennt með skilyrtri gildistöku laganna og það mikið hef ég þó lesið að ég áttaði mig á því að gildistakan er skilyrt. Hún er bundin því að niðurstaða hafi fengist í tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga, sbr. 1. tölul. gildistökugreinarinnar, 55. gr. Það er vel en ég hefði talið að best hefði verið að ramminn um tekjusamskipti ríkis og sveitarfélaga, tekjustofnanir og sjálfstæði sveitarfélaganna hefði legið fyrir fyrst.