Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 16:21:44 (5178)

2000-03-13 16:21:44# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[16:21]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Sjónarmið okkar stjórnmálamanna hlýtur að vera að hvetja til þess að þjónusta sem hið opinbera ætlar og vill skipta sér af verði sem árangursríkust fyrir þegnana og sem hagkvæmust fyrir skattborgarana. Eins og hér hefur komið fram átti ég sæti í þeirri laganefnd sem samdi rammann að lagafrv. því sem hér liggur fyrir og þetta voru meginsjónarmiðin í starfi nefndarinnar.

Hér er sem sagt verið að vinna að flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga í þeim tilgangi að gera verkaskiptingu opinberra aðila einfaldari og skilvirkari. Jafnframt eru sveitarfélög hvött til þess að fela einstaklingum og félagasamtökum rekstur opinberrar þjónustu eða hluta hennar í auknum mæli þar sem það á við.

Góð samvinna beggja stjórnsýslustiga er mikilvæg til þess að stuðla að markvissri stjórnsýslu og hagræðingu í opinberum rekstri. Með stærri sveitarfélögum hefur skapast möguleiki fyrir þau að annast fjölþættari stjórnsýsluhlutverk. Einnig er mjög mikilvægt í ljósi mikilla flutninga frá landsbyggð til höfuðborgar að auka verkefni hjá sveitarfélögunum sem þau geta sinnt.

Í nokkuð langan tíma hefur verið unnið að undirbúningi yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna á ýmsum stigum stjórnsýslunnar. Með þessu frv. er skerpt á skyldu sveitarfélaga til að veita íbúum sínum félagsþjónustu. Það er mikilvægur þáttur í frv. Tilgangurinn er sá að félagsþjónustan verði jafnvíg annarri velferðarþjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu og menntakerfi. Virt er sjálfstæði sveitarfélaga þannig að þau ákveði hvernig þau veita þjónustuna en skylda þeirra til þess að veita þá þjónustu er ótvíræð. Gengið hefur verið út frá því að hin siðferðislega undirstaða framkvæmdar félagsþjónustunnar verði að borin sé virðing fyrir þörfum einstaklingsins og sjónarmiðum hans.

Á Norðurlöndum gerist æ áleitnari spurningin: Hvað er velferðarþjóðfélag? Þeirri spurningu hefur verið varpað fram hvort það sé raunveruleg velferð að skammta öllum þeim sem búa við tilteknar afmarkaðar aðstæður fyrir fram ákveðnar bætur t.d., án tillits til annarra aðstæðna. Því hefur þeirri skoðun vaxið fiskur um hrygg að skoða eigi aðstæður hvers og eins og veita honum einstaklingsbundna ráðgjöf. Oft ber það við að einstaklingur er betur kominn með félagsráðgjöf eða ráðgjöf t.d. á fjárhags-, húsnæðis- eða fjölskyldusviði, og svo má lengi telja, heldur en beinar peningalegar greiðslur. Við verðum sífellt að vera á varðbergi fyrir því hvernig velferðarkerfinu er best fyrir komið og ekki síst samhengi tryggingakerfisins, lífeyriskerfisins og félagsþjónustunnar.

Ég tel ótvírætt að framtíðin í okkar ágæta velferðarþjóðfélagi sé að einstaklingurinn með margbreytilegar aðstæður sínar og þarfir verði viðfangsefni félagsþjónustunnar en ekki hópar sem kannski eiga við eitt sameiginlegt vandamál að stríða en eru að öðru leyti ólíkir. Félagsþjónusta í nútímasamfélagi tekur á ákaflega mörgum þáttum mannlegs lífs. Félagsþjónustan tekur til margs konar ráðgjafar, fjárhagsaðstoðar, húsnæðisaðstoðar og aðstoðar til að koma til móts við sérstakar þjónustuþarfir. Þar má nefna heimaþjónustu og liðveislu, ferðaþjónustu, stuðningsfjölskyldur, skammtímadvöl, sumardvöl, dagvist og þar með iðju og þjálfun, heimili fyrir fötluð börn og tómstundastarf. Auk þessa er þjónusta almenns eðlis sem felst t.d. í að standa vörð um rétt fólks og í forvarnastarfi. Eins og ég hef hér talið upp þá er fjölbreytnin mjög mikil og kannski mætti lengi áfram telja.

Gert hefur verið ráð fyrir því allt frá gildistöku laganna um málefni fatlaðra frá árinu 1991 að málefni fatlaðra færðust yfir til sveitarfélaganna. Eins hefur sá málaflokkur ávallt verið nefndur þegar talað hefur verið um yfirfærslu fleiri málefna til sveitarfélaganna. Það lagafrv. sem hér birtist ber því ótvírætt vitni að stefna stjórnvalda er þessi. Sjálfri hefur mér orðið æ betur ljóst eftir að hafa kynnt mér þennan málaflokk að þjónusta við fatlaða á að vera og getur verið eðlilegur þáttur félagsþjónustu.

Samþætting þjónustu við fatlaða við aðra opinbera þjónustu er mjög eðlileg og byggir á þeim jafnræðissjónarmiðum sem annars gilda í nútímasamfélagi. Hins vegar er augljóst mál að þeir sem veita eiga þjónustuna verða að hafa til þess fjármagn og við yfirfærsluna verður vitanlega gert ráð fyrir því að sveitarfélögin fái til ráðstöfunar fjármagn með málaflokknum. Mín skoðun er hins vegar einnig sú að sveitarfélögin geti veitt fötluðum betri og ódýrari þjónustu. Mikið af þeirri velferðarþjónustu sem sveitarfélögin veita nú þegar mun nýtast betur eftir þennan flutning en raunin er núna.

Eitt af grundvallarsjónarmiðunum sem gengið er út frá er einnig að forðast beri sérgreiningu þeirra sem njóta félagslegrar þjónustu. Það grundvallarsjónarmið kemur m.a. fram í g-lið 10. gr. Segja má að með nýrri húsnæðislöggjöf hafi verið stigið mikilvægt skref í átt að þessum sjónarmiðum með því að breyta félagslegri aðstoð við húsnæðisöflun þannig að hún er nú einstaklingsbundin en ekki bundin við ákveðna tegund húsnæðis. Þeir sem aðstoðar þurfa að njóta varðandi húsnæðisöflun velja sér sjálfir þá íbúð sem þeir kjósa að búa í en áður voru byggðar sérstakar íbúðir fyrir þá og þeir þannig sérgreindir. Eins og við þekkjum hafa orðið til heilu hverfin, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu, sem byggð voru í þessum tilgangi. Slík sérgreining er óheppileg og frá henni hefur verið horfið.

Í samræmi við þessi viðhorf verða nú stigin skref varðandi fatlaða og er það vel. Mín skoðun er sú að við verðum einnig að skoða málefni aldraðra með þessu hugarfari og huga að þeirri formgerð dvalarheimila og hjúkrunarheimila sem við þekkjum nú.

Við verðum ávallt að gæta þess að við lokum fólk ekki inni í gildrum tryggingakerfisins. Vel þekkt dæmi eru um það erlendis frá þar sem fólk í annan og þriðja og jafnvel fjórða ættlið er atvinnulaust. Fólk er hætt að hafa frumkvæði að því að leita sér atvinnu eða þróa með sér hæfileikann til að stunda einhvers konar vinnu. Þetta er hættulegt ástand fyrir öll þjóðfélög og ég er sannfærð um að íslenska þjóðarsálin muni sem betur fer seint sætta sig við slíka hluti. Þess vegna er hvers konar ráðgjöf mikilvæg eins og fram kemur m.a. í 2. gr. frv. og 9. gr., varðandi hæfi og menntun starfsfólks. Og þetta kemur einnig víðar fram.

Þegar litið er á framkvæmd félagsþjónustunnar er það almennt svo að nærþjónusta við borgarana er betur komin hjá sveitarfélögum en ríki og það á við um flesta þjónustu og vissulega um félagsþjónustuna. Við hljótum líka að velta því fyrir okkur hvernig megi ná fram hagræðingu í rekstri þjónustunnar án þess að það komi niður á gæðum hennar. Við megum ekki vera svo lokuð fyrir nýjum stjórnunarháttum að við nýtum okkur ekki það sem best er þekkt í stjórnunartækni á hverjum tíma. Við verðum ávallt að vera opin fyrir nýjungum, ekki nýjunganna vegna heldur til þess að bæta þjónustu og nýta dýrmæta fjármuni.

[16:30]

Við teljum okkur nú um stundir vita að kostir einkareksturs eru ótvírætt mjög miklir. Það má ekki líta á það sem bannorð að tala um einkavæðingu og einkaframkvæmd í opinberum rekstri frekar en öðrum. Einkavæðing hefur vissulega sína stóru kosti en henni fylgir líka það að gott eftirlit verður að vera með starfseminni. Við verðum að þróa eftirlitskerfi með þeirri starfsemi sem við bjóðum út eða seljum einkaaðilum. Það verður að þróa staðlakerfi sem innifelur það að menn leitist við að bæta þjónustu sína með öllum ráðum, notendum þjónustunnar til hagsbóta og ríkinu og skattgreiðendum þar með til sparnaðar.

Slíkt er hægt að gera og við megum ekki efast um það. Ég hef einnig grun um að ríkið og sveitarfélögin eigi talsvert starf eftir við að þróa innra eftirlit í þjónustu sinni. Slíkt eftirlit er forsenda þess að við treystum þeirri þjónustu sem við leggjum skattpeningana í.

Ég get ekki stillt mig um að fjalla aðeins um frv. í ljósi byggðamála. Að mínu viti skiptir mjög miklu að allir landsmenn hvar í sveit sem þeir eru settir eigi aðgang að góðri félagsþjónustu. Þá er ég ekki að segja að hún eigi alls staðar að vera byggð upp með sama hætti heldur að grundvallarþættir hennar séu sambærilegir að gæðum þótt framkvæmdin sé mismunandi eftir aðstæðum.

Ég má einnig til með að nefna það að dýrmæt reynsla hefur fengist í félagsþjónustu í dreifbýli með þeirri faglegu félagsþjónustu sem er veitt t.d. í Þingeyjarsýslum og félmn. kynnti sér sérstaklega sl. haust. Þar hefur verið þróað starf sem ég veit að á eftir að verða til fyrirmyndar öðrum sveitarfélögum í framkvæmd þjónustunnar. Það sýnir hvernig sveitarfélög geta unnið saman að framkvæmd erfiðra og krefjandi verkefna.

Einnig er rétt að taka fram að önnur sveitarfélög hafa jafnframt tekið að sér þjónustu við fatlaða ýmist með þjónustusamningi eða samkvæmt reynslusveitarfélagaverkefni. Alls staðar hefur orðið góð reynsla af þessu fyrirkomulagi og er þar rétt að nefna Eyjafjörðinn, Hornafjörð, þ.e. Suðausturland, Vestmannaeyjar og Norðurland vestra.

Hæstv. forseti. Ég hef ekki farið hér í einstaka þætti félagsþjónustunnar eða greinar frv. en nefnt að í nútímasamfélagi er þjónustan mjög fjölþætt. Eitt af því sem við verðum ávallt að hafa í huga eru hagsmunir barna og þar er hlutverk félagsþjónustunnar mikilvægt. Segja má að heppilegasta félagsþjónustan sé traustur grundvöllur fjölskyldunnar en því miður verðum við að telja að langt sé í land með að það sé eina lausnin á samfélagsvandamálum þeim sem birtast okkur í ýmsum myndum nú og í framtíð.

Þó er ástæða til að nefna að í vaxandi mæli gera fyrirtæki nú fjölskylduáætlanir sem miðað að því að starfsmenn geti lifað betra fjölskyldulífi. Hagur fyrirtækjanna er ánægðara og afkastameira starfsfólk, hagur samfélagsins er að félagslegum vandamálum fækkar og síðast en ekki síst lifa einstaklingarnir væntanlega hamingusamara lífi.

Frv. um jafna stöðu kvenna og karla sem nú er til umfjöllunar í félmn. gerir einmitt ráð fyrir að stærri fyrirtæki geri slíkar áætlanir. Ég vil einnig nefna áætlanir ríkisstjórnarinnar um foreldraorlof og er feðraorlof einn mikilvægasti þátturinn í bættri stöðu fjölskyldunnar og jafnrétti kynjanna.

Hæstv. forseti. Verkefnið nú er frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og þau fylgifrv. sem óhjákvæmilega fylgja með vegna yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga. Í byrjun fór starf okkar nefndarmanna í laganefnd mikið í að átta okkur á hlutverki okkar og setja okkur inn í núverandi stöðu í þeim málaflokkum sem við áttum að smíða frv. utan um. Ég gekk t.d. með þá grillu í upphafi að hlutverk okkar væri að skeyta lögunum um málefni fatlaðra inn í félagsþjónustulögin. En mér var fljótlega gerð grein fyrir því að það hentar ekki nú á tímum að nútímastjórnmálamenn ynnu að slíkri lagasetningu. Okkar hlutverk var auðvitað að smíða fyrirmyndarríkið utan um félagsþjónustuna. Segja má að sá vegur hafi á köflum verið þyrnum stráður og ekki ætla ég að halda því fram að okkur hafi í þessari tilraun tekist að ná því háleita markmiði. En við gerðum vissulega heiðarlega tilraun til þess.

Snemma var ákveðið að vinna út frá hugsuninni um samþættingu eins og menn þekkja frá öðrum löndum. Það þýðir þá að hver málaflokkur á að vera ábyrgur fyrir sinni þjónustu gagnvart hverjum einstaklingi í þjóðfélaginu sem fellur undir hans þjónustusvið. Sem dæmi: Menntakerfið á að sjá um að hver og einn á aldursskeiði hvers skólastigs um sig fái menntun við hæfi, strætisvagnakerfið á að sjá um að allir geti ferðast með því, heilbrigðiskerfið á að sinna öllum sem til þess leita, öldrunarþjónustan á að sjá um að allir njóti þjónustu innan hennar, Vinnumálastofnun á að sjá um atvinnumál allra og félagsþjónustan á að sinna öllum eftir þörfum hvers og eins. Þetta er samþætting.

Í vinnu okkar þýddi þetta jafnframt að við leituðumst við að nefna aldrei nokkurn einstakan hóp svo sem börn, unglinga, alkóhólista, fíkla, fátæka, fatlaða, öryrkja, aldraða, konur eða karlmenn. Þetta tókst okkur nú ekki fullkomlega en segja má að meginhugsunin hafi verið sú sem fram kemur í g-lið 10. gr. í frv. sem nú liggur fyrir. Ég nefndi áðan þessa hugsun um grundvallarreglur um framkvæmd félagsþjónustunnar að forðast sérgreiningu þeirra sem njóta þjónustu samkvæmt lögunum.

Sú staðreynd að verið er að fella saman lög um félagsþjónustu sveitarfélaga annars vegar og lög um málefni fatlaðra hins vegar setur að sjálfsögðu svip sinn á frv. Við samruna laga sem eru eins ólík og hér um ræðir hefur verið leitast við að viðhalda helstu einkennum beggja laganna. Þannig eru skyldur sveitarfélaganna til að veita þjónustuna án fyrirvara með sama hætti og skyldur ríkisins nú varðandi málefni fatlaðra. Skyldum ríkisins fylgir réttur einstaklinga. Á hinn bóginn viðhaldast einkenni félagsþjónustulaga um svigrúm sveitarfélaga við framkvæmd þjónustunnar. Leitast er við að nýju félagsþjónustulögin eða þetta nýja frv. rúmi jafnt þjónustu almenns eðlis og sérhæfs eðlis.

Við samningu þessa frv. er önnur hugsun jafnframt lögð til grundvallar, þ.e. að í stað þjóðfélagshópa er lögð áhersla á að sundurgreina þær þarfir sem eru fyrir þjónustu óháð því hvort þær finnist hjá einum þjóðfélagshópi frekar en öðrum.

Hæstv. forseti. Ég óska að lokum eftir góðu samstarfi við nefndarfólk við vinnslu frv. í félmn. Ég tek undir það með hæstv. félmrh. að nauðsynlegt er að vinna málið vel og af sérstakri gaumgæfni. Því er mikilvægt að sem flestir hafi möguleika á að kynna sér frv. og senda umsagnir um það til félmn. Í þessu ferli okkar erum við væntanlega aðeins að tala um kynningu á frv. og að við getum síðan tekið það til umræðu aftur á næsta hausti.