Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 16:38:19 (5179)

2000-03-13 16:38:19# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[16:38]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er ástæða til þess að fagna því frv. sem hér er lagt fram af hæstv. félmrh. um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ég held að flestir séu sammála því markmiði sem að er stefnt með þessu frv., þ.e. að fella þjónustu við fatlaða inn í löggjöfina um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ég held að óhætt sé að segja að lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga hafi á sínum tíma, þegar þau voru sett 1991, markað tímamót í velferðarmálum á Íslandi. Sama má segja um lög um málefni fatlaðra 1992 sem þá voru endurskoðuð. Þau bættu verulega þjónustu við fatlaða með mjög merkum nýmælum sem þar voru sett inn til þess að auka fjölbreytni í þjónustu við fatlaða.

Auðvitað er ljóst að uppbyggingin á þessum tvennum lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og málefni fatlaðra er gjörólík. Félagsþjónustulögin eru rammalög þar sem mat og útfærsla er mikið á hendi sveitarfélaganna en lögin um málefni fatlaðra eru nokkuð afdráttarlaus um skyldur sveitarfélaganna og hvaða réttindi og þjónustu fatlaðir eiga rétt til samkvæmt lögunum. Því er auðvitað vandmeðfarið að steypa þessum tvennum lögum saman og vissulega er þarna ákveðin áhætta tekin. Reyndar er mikið traust sett á sveitarfélögin varðandi framkvæmd nýju laganna enda fá sveitarfélögin áfram nokkuð vítækt svigrúm til þess hvernig þau standa að framkvæmd laganna þó markmiðin liggi nokkuð skýr fyrir. Frv. þetta um félagsþjónustu sveitarfélaga er mun meira afgerandi varðandi skyldur sveitarfélaganna en verið hefur og af því njóta auðvitað góðs þeir sem áður hafa notið réttar samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Auðvitað er forsenda þessa alls að sveitarfélögin sjálf séu í stakk búin til að taka við þessum verkefnum. Þar hefur maður vissulega nokkrar áhyggjur af minni sveitarfélögunum. Sveitarfélögin eru um 124 eða 125 og þar af held ég að um 100 hafi íbúafjölda undir 400. Mörg sveitarfélaganna eru kannski ekki öflugri en svo að ástæða er til að hafa áhyggjur af því hvort þau séu fær um að taka að sér þessi verkefni. En auðvitað kemur þá til, eins og hæstv. ráðherra nefndi, samstarfs sveitarfélaga við þetta verkefni.

Grundvallaratriðið sem mér finnst þurfa að koma skýrt fram hér við þessa umræðu er að stefna ríkisstjórnarinnar með flutningi á þessum málaflokki til sveitarfélaganna sé að fatlaðir njóti í engu minni réttinda og þjónustu en þeir hafa haft samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Það verður að liggja skýrt og klárt fyrir að mínu mati, að það sé markmiðið.

Eftir að hafa farið yfir frv. finnst mér ekki liggja nægilega skýrt fyrir að þjónustan sem var í lögunum um málefni fatlaðra sé algjörlega tekin upp hér. Auðvitað er þetta matsatriði sums staðar vegna þess að sveitarfélögin fá þarna aukið svigrúm, þ.e. svigrúm sem ekki var í lögunum um málefni fatlaðra, til að meta þjónustuna.

Síðan er hér tekið upp gífurlega mikilvægt atriði. Það er þjónusta við langveik börn sem ekki hefur verið nægjanlega mikið fyrir hendi í velferðarkerfi okkar. Þjónusta við langveik börn er langt á eftir t.d. þjónustu við fötluð börn og því er afar mikilvægt að úrræði varðandi þau séu tekin upp í þetta frv. Það er í samræmi við þáltill. sem flutt var fyrir tveimur eða þremur árum síðan af þingmönnum úr öllum flokkum þar sem markmiðið var að langveik börn fengju sömu þjónustu og fötluð börn.

Mér finnst greinarnar, þegar þær eru lesnar yfir, ekki nægjanlega skýrar varðandi langveik börn. Sums staðar er talað um langveik börn en annars staðar er ekki á þau minnst. Ef það ætti að vera í almennri markmiðsgrein að öll ákvæði laganna ættu að taka þarna til langveikra barna, þá lægi þetta nokkuð skýrt fyrir. En þegar sums staðar er talað um langveik börn, í sumum ákvæðum og sumum greinum sem kveða á um þjónustu, en öðrum ekki þá veltir maður fyrir sér hvort ekki þurfi að skoða þetta eitthvað betur. Í sumum tilvikum er bara verið að tala um langveika, ekki langveik börn, og í sumum tilvikum er talað um langveik börn. Maður veltir þess vegna fyrir sér hvort ekki þurfi meira samræmi í þetta. Þegar verið er að tala um langveika, er þá verið að tala um þá sem eru eldri en 18 ára, fullorðna langveika eða hvað er verið að tala um? Ég gæti nefnt ýmsar greinar þar sem þetta er óskýrt og þetta finnst mér að félmn. þurfi að taka upp.

Það liggur auðvitað fyrir að flutningurinn á málaflokknum hefur notið öflugs stuðnings Öryrkjabandalagsins og Landssamtakanna Þroskahjálpar en því hefur ávallt verið fylgt að þjónustan verði í engu skert. Reyndar treysta menn á að hún verði þá aukin líka á einhvern hátt. Annað meginatriði er að tekjustofnar og fjármögnun verði tryggð sem alls ekki liggur ljóst fyrir. Ég verð að segja eins og fram hefur komið hjá sumum í þessum ræðustól að það er afar erfitt að ræða þetta mál eitt og sér þegar ekki liggur fyrir frv. um fjármögnun á þessu fyrir sveitarfélögin, hve mikið sveitarfélögin fá til sín, hvaða tekjustofna o.s.frv. Einnig eru nokkur fylgifrv. sem nauðsynlegt er að samþykkja samhliða því að þetta kemst til framkvæmda sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Þar eru frv. um vinnumarkaðsaðgerðir með tilliti til yfirtöku Vinnumálastofnunar á atvinnumálum fatlaðra, um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og lögum um skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga með tilliti til þessarar yfirfærslu. Einnig mundi fylgja lagabreyting vegna flutnings starfsmanna frá ríki til sveitarfélaga sem er auðvitað afar viðkvæmt líka.

Þess vegna get ég alveg fallist á þá málsmeðferð sem hæstv. félmrh. leggur hér til, að málið fái ítarlega skoðun í félmn., verði sent þar til umsagnar og síðan verði tekið til við það aftur hér á haustþingi. Af því tilefni spyr ég hæstv. ráðherra um það: Má þá vænta þess að þau frv. sem hér eru talin upp muni liggja fyrir þegar við fjöllum um málið á komandi haustþingi? Ég tel afar mikilvægt svo verði.

[16:45]

Síðan finnst mér vanta að skilgreining liggi klárt fyrir hvort allir hópar fatlaðra eigi skýlausan rétt samkvæmt lögum þessum. Ég nefni t.d. geðsjúka í þessu sambandi og fleiri hópa mætti nefna. Falla undir lögin allir þeir einstaklingar sem tilheyra einhverju af fjölmörgum aðildarfélögum Öryrkjabandalagsins? Þetta nefni ég þannig að vel sé yfir það farið og ekki rísi síðar deilur um hvort þjónusta við einhverja skilgreinda hópa fatlaðra falli undir skyldur ríkis eða sveitarfélaga. Skilgreiningin í 2. gr. í lögum um málefni fatlaðra er nokkuð skýr, þar segir hverjir eiga rétt á þjónustu, þar er talað um þroskahömlun, geðfötlun, hreyfihömlun og sjón- og heyrnarskerðingu. Ég spyr hvort það sem hér er verið að tala um, skilgreining á fötlun, geðfötlun og sjón- og heyrnarskerðingu falli undir ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Munu heyrnarlausir, blindir og geðsjúkir eiga rétt samkvæmt þessum lögum og hafa sveitarfélögin eftir samþykkt þessara laga sömu skyldur og ríkið hafði samkvæmt lögunum um málefni fatlaðra við þessa hópa? Vel getur verið að þetta liggi allt klárt og kvitt fyrir en mér finnst mikilvægt að það sé staðfest í ræðustól af hæstv. ráðherra.

Ég geri líka nokkrar athugasemdir við það sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Mér finnst það sem verið er gera hér mjög óskýrt, kannski er heimildin mjög víðtæk þannig að maður veit ekki hvar í framkvæmdinni þetta getur lent. Þá erum við að tala um að einkaaðilar annist þjónustu og um gerð þjónustusamninga. Ég hef nokkrar áhyggjur af því að verið sé að auka of mikið svigrúm varðandi þjónustusamninga og að einkaaðilar taki að sér slíka þjónustu. Ég held að við hljótum að standa vörð um þau gildi að félagsþjónusta, heilbrigðisþjónusta og menntamál verði tryggð öllum óháð efnahag. Þess vegna er maður satt að segja á varðbergi um alla möguleika á því að einkaaðilar geti tekið að sér rekstur sem fellur innan velferðarþjónustunnar og hvað það þýðir.

Ég nefni t.d. að mér finnst nokkuð óskýrt það sem sagt er um þetta. Fjallað er um hvað það sé sem einkaaðilar geti tekist á hendur og hvað þeir hafa haft. Mér finnst þetta allt mjög óskýrt og ég hefði viljað heyra ráðherrann ræða skýrar um þetta en hann gerði í framsögu sinni. Hvað er verið að opna fyrir?

Hérna er t.d. sagt á bls. 50:

,,Hér er annars vegar átt við þau tilvik er félagasamtök eða einkaaðili hefur áhuga á að starfrækja einhvern þátt þeirrar þjónustu sem fellur undir lögin án þess að sækja um fjármagn til þess.``

Hvað þýðir þetta ,,án þess að sækja um fjármagn til þess``?

Síðan segir:

,,Sjálfsagt þykir að slík starfsemi sé leyfisskyld`` sem er auðvitað rétt og eðlilegt.

Þýðir þetta þá nákvæmlega það sem er verið að heimila að einkaaðilar komi hérna inn, að gerðir séu þjónustusamningar við þessa einkaaðila og sveitarfélögin greiði fyrir þá þjónustusamninga en að ekki sé verið að auka hlutdeild þeirra sem fá þjónustuna í greiðslu? Það þarf að koma mjög skýrt fram að ekki sé verið að auka gjaldtöku einstaklinganna sem njóta þjónustunnar umfram það sem er, jafnvel þó að einkaaðilar tækju að sér þessa þjónustu --- sem ég hef allan fyrirvara á --- ég verð að segja það eins og er og finnst þetta orðalag hér mjög loðið.

Mig langar aðeins að víkja að fjármögnuninni. Svo mikið sem hægt er að komast til botns í því hvað þetta þýðir þá fer fjmrn. aðeins inn á það mál í umsögn sinni og þar er vitnað til þeirra áætlana sem hafa verið unnar um þjónustuþörf og hvernig eigi að tæma biðlistana sem liggja nú fyrir um búsetuþörf og verið er að tala um að það eigi að gera á sjö ára tímabili. Stofnkostnaður verði 4 milljarðar og í viðbót við rekstrarkostnað kosti það 700 milljónir ef ég skil málið rétt. Eru það þær áætlanir sem verða lagðar til grundvallar varðandi fjármögnunina? Liggur eitthvað fyrir um það?

Það hefur líka verið rætt um að meta eigi þjónustuþörf hvers og eins fatlaðs þannig að greitt væri samkvæmt því, en ég spyr: Hefur verið tekin ákvörðun um þá stefnu að farið verði í fjármögnunina samkvæmt þeim áætlunum sem hafa verið gerðar? Þá er ég fyrst og fremst að tala um búsetuna vegna þess að auðvitað koma til margir fleiri þættir.

Ég hef líka áhyggjur af húsnæðismálunum. Hér var komið inn á að verið er að draga verulega úr skyldum sveitarfélaga frá því sem er í núgildandi lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga varðandi félagslegar eignaríbúðir og kaupleiguíbúðir sem er náttúrlega afleiðing af því þegar félagslega kerfinu var lokað. Ég nefni t.d. Framkvæmdasjóð fatlaðra, sem ég geri miklar athugasemdir við að verið sé að leggja niður án þess að við höfum nokkuð fyrir framan okkur hvernig verður staðið að fjármögnun með öðrum hætti. Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur gegnum árin frá því að hann var stofnaður lyft grettistaki í því að koma á öflugri uppbyggingu á þjónustu við fatlaða um land allt, sambýli, ýmiss konar þjónustu sem ég hygg að flestir séu sammála um að aldrei hefði orðið af ef ekki hefði notið við þessa sjóðs. Sjóðurinn veitir t.d. 10% í fjármögnun á húsnæði fyrir félagasamtök þannig að þau hafa hingað til getað fengið 100% fjármögnun á húsnæði fyrir fatlað fólk. Nú er verið að leggja þetta af. Hvað kemur í staðinn fyrir þau 10% sem sjóðurinn hefur lánað til félagasamtaka? Mikil stefnubreyting hefur átt sér stað varðandi félagslegt húsnæði og leiguhúsnæði og ég spyr ráðherrann t.d. um hvort tekin hafi verið ákvörðun um þær leiguíbúðir sem verður úthlutað á þessu ári, til að mynda til félagasamtaka um vaxtakjörin. Það hlýtur að liggja fyrir núna. Þetta voru tiltölulega fáar íbúðir á síðasta ári og áformuð á þessu ári sem átti veita með 1% vöxtum. Ég man ekki betur en að það hafi verið niðurstaðan að þetta yrði síðasta árið sem veitt yrði fjármagn með niðurgreiddum vöxtum.

Ég sé ekki fyrir mér að sveitarfélög sem hafa byggt mjög fáar leiguíbúðir þrátt fyrir 1% vexti, þrátt fyrir mjög niðurgreidda vexti, fari allt í einu þegar vextir eru komnir kannski upp í 5--6% að byggja mikið af leiguhúsnæði eða sérstöku húsnæði fyrir fatlaða. Fatlaðir þurfa í mörgum tilvikum mjög sérhannað húsnæði og ég er ekki farin að sjá fyrir mér að sveitarfélögin geri mjög mikið í því að byggja það sérhannaða húsnæði sem þarf.

Hæstv. ráðherra hefur bent á leiguhúsnæði þegar þetta hefur komið til tals. Leiguhúsnæði, sem hentar fyrir þá sérhönnun sem þarf oft á uppbyggingu á húsnæði fyrir fatlaða, er bara ekki á hverju strái.

Síðan nefni ég að eftir því sem ég hafði vitneskju um þá var niðurstaðan í nefndinni að leggja niður sólarhringsstofnanir líkt og gert hefur verið t.d. í Noregi og Svíþjóð. Ráðherrann hafði ætlað að skipa nefnd með aðkomu að mig minnir Greiningarstöðvarinnar sem átti að meta þörfina hjá þeim sem eru á þessum sólarhringsstofnunum og það átti að leysa þarfir þeirra á grundvelli þess frv. sem við erum að fjalla um sem væntanlega verður að lögum á næsta ári.

Nú skilst mér að fallið hafi verið frá þessu og ég spyr um það: Var fallið frá þessu með þeim hætti að verið sé að festa í sessi þær sólarhringsstofnanir sem nú starfa og það hafi verið gert eftir að hagsmunasamtök fatlaðra komu að málinu?

Ég vil líka spyrja um það sem mér þykir mjög athyglisvert en það eru breytingar sem hæstv. ráðherra hefur fallist á frá því að laganefnd skilaði tillögum sínum. Ég spyr: Var það gert í samráði við samtök fatlaðra eða þeirra sem eiga að njóta þessarar þjónustu? Það stendur í þeim breytingum sem ráðherrann samþykkti að tilhlutan, að mér skilst, Sambands ísl. sveitarfélaga: ,,Óþarft þótti að taka fram í 4. gr. frv. að stefnumótun færi fram í félmrn. og í 10. gr. var felld brott ein af grundvallarreglum frv., að félmn. skyldi í störfum sínum eiga samráð við félagasamtök og hagsmunasamtök þeirra sem félagsþjónustu njóta við uppbyggingu og stefnumótun þjónustunnar.``

Mér finnst afleitt ef þetta hefur verið niðurstaðan vegna þess að það var alltaf grundvallaratriði í lögum um málefni fatlaðra, og kom fram í 1. gr., að við framkvæmd á markmiðum laganna átti að tryggja heildarsamtökum fatlaðra og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðra. Er verið að falla frá því í þessu frv.?

Ég spyr: Er gert ráð fyrir því að félag langveikra barna, Umhyggja, eða Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, sem nú fyrst fá skýran rétt í þessu frv., eigi aðild að einhverju samráði um framkvæmd þessara laga? Ég sé ekki að í nefnd sem á að fylgjast með hvernig þetta frv. virkar eigi t.d. sæti fulltrúi frá Umhyggju. Ég spyr ráðherrann hvort hann geti ekki fallist á að eðlilegt sé þegar er verið í fyrsta skipti að móta lög sem taka til langveikra barna að fulltrúi þeirra eigi sæti í þeirri nefnd.

Síðan kemur fram í þeim breytingum sem ráðherrann gerði og féllst á að skylda sveitarfélaga varðandi forvarnastarf gagnvart áhættuhópum er ekki jafnafdráttarlaust orðuð og laganefndin lagði til. Þetta er mjög alvarlegt. Hvað erum við tala um í forvarnastarfið? Erum við að tala um fíkniefnavarnir? Hvað erum við að tala um? Er virkilega verið að draga úr skyldum sveitarfélaganna varðandi forvarnastarf? Hver er þá skýringin á því?

Síðan er verið að draga úr skyldu sveitarfélaganna eða orðalagi þar til þess að hafa nægt framboð á leiguhúsnæði. Það er ekki jafnfortakslaust orðað og fram kom í frumvarpsdrögum laganefndar. Alls staðar hefur verið slakað á í þessu efni.

Við gjaldtökuheimild frv. bætist nýr liður, 7. töluliður, þess efnis að sveitarfélögunum væri heimil gjaldtaka fyrir eftirlit með rekstraraðilum og leyfisveitingar svo og ákvæði um að sveitarfélögum verði heimilt að taka húsaleigu af einstaklingum sem búa í húsnæði sem ætlað er til að mæta sérþörfum.

Þetta finnst mér slæmt ef þarna hefur verið slakað svona mikið á. Ég sé að tími minn er að renna út en ég hefði viljað fara nánar ofan í gjaldtökuákvæðin í þessu frv., bera þau saman við þau sem fyrir eru vegna þess að gjaldtökuákvæðin, sem fyrir eru, hafa ekki verið nýtt í mörgum tilvikum, t.d. varðandi skammtímavistun, liðveislu o.s.frv., en þarna skilst mér að nú sé heimildin að víkka út og full ástæða sé til þess að ætla að gjaldtaka hjá sveitarfélögunum verði aukin þegar verkefnin flytjast þar yfir frá því sem nú er, miðað við það sem fram er sett í þessu frv. Þetta vildi ég spyrja ráðherrann um varðandi gjaldtökuheimildirnar.

Ég spyr líka: Hvað með samráð um setningu reglugerðar samkvæmt 54. gr. við Samtök fatlaðra og Umhyggju. Verður haft samráð við þau um setningu reglugerðar?

Ég sé að tími minn er búinn og ég hafði ýmislegt meira að athuga við þetta frv., t.d. varðandi langveik börn, sem ég verð þá að taka upp í síðari ræðu minni.